Um 2000 færri ferðamenn til Hríseyjar í júní í ár en í fyrra

Mun færri ferðamenn lögðu leið sína til Hríseyjar í júní en í sama mánuði í fyrra og munar þar um 2000 manns, að sögn Smára Thorarensen á Hríseyjarferjunni Sævari.  Í júní árið 2010 fóru um 7000 manns með ferjunni til eyjarinnar en þeir voru 5000 í ár.  „Júní var handónýtur, enda veðrið ekki upp á marga fiska," segir Smári.  

Hann segir að nú í júlí hafi lifnað verulega við og mikill straumur ferðamanna hafi farið út í Hrísey. „Um leið og hlýnaði þá lifnaði yfir öllu.  Veðrið skiptir fólk auðvitað mikilu, flestir sem til okkar koma eru í dagsferðum eða taka part úr degi til að heimsækja eyna og þá er mikið atriði að veðrið sé þokkalegt.  Þetta snýst allt um veðrið," segir Smári.

Langflestir ferðamenn sem til Hríseyjar koma eru Íslendingar, einn og einn útlendingur slæðist með að sögn Smára en áður fyrr var komið með útlendinga í hópum til eyjarinnar og m.a. snæddur þar hádegisverður í veitingahúsinu Brekku.  „Það er alveg búið, það eru allir að spara núna, þetta er svolítill krókur og fyrirhöfn og eins eru ferðaskrifstofur hættar að bjóða upp á hádegismat, þannig að núna koma þessir hópar ekki lengur út í Hrísey," segir Smári.

Hann segir að fyrri hluti ágústmánaðar sé að jafnaði góður, allt fram undir 20. ágúst sé mikið um ferðalanga í Hrísey, en eftir það detti straumurinn niður.  „Ef það mynstur helst og veðrið verður í lagi þá geri ég ráð fyrir að sumarið í heild komi þokkalega út," segir Smári og bætir við að mannlífið sé með miklum ágætum í eynni.

Nýjast