Um 200 millilandaflug um Akureyrarflugvöll í ár

Sigrún Björk Jakobsdóttir
Sigrún Björk Jakobsdóttir

„Við greinum mikinn og aukinn áhuga erlendra flugfélaga að nýta sér nýjar gáttir sem í boði eru á Ísland, á Akureyri og Egilsstöðum. Í það heila eru staðfest tæplega 200 millilandaflug um Akureyrarflugvöll á tímabilinu frá janúar og út nóvember,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla. Mest verður um millilandaflug á komandi sumri en hún segir að frá júní til ágúst séu þegar búið að staðfesta 70 millilandaflug um Akureyri.

 Sigrún Björk segir að fyrir tveimur árum hafi Isavia Innanlandsflugvellir, Íslandsstofa, Markaðsstofa Norðurlands og Austurbrú sett á laggirnar verkefni sem snérist um að kynna nýjar gáttir til Íslands og var það stutt af menningar- og ferðamálaráðuneytinu. Hún segir ríkið styðja myndarlega við verkefnið og hafi Ísland komið vel út í samanburði við svipuð verkefni á norðurslóðum í Skandinavíu. Flugþróunarsjóður var settur á laggirnar á sínum tíma og var honum ætlað að styrkja markaðssetningu á flugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum.  Sjóðurinn styrkir bæði leiðaþróun með ákveðnu gjaldi á farþega og einnig er fyrir hendi markaðsstuðningur sem er hugsaður sem króna á móti krónu. Þá veita Isavia Innanlandsflugvellir afslátt af lendingar- og farþegagjöldum fyrstu þrjú árin.

Edelwiss og Condor sjá tækifæri

Sigrún Björk segir að fulltrúar frá Isavia Innanlandsflugvöllum og Íslandsstofu hafi sótt ráðstefnur erlendis og kynnt verkefnið um nýjar gáttir til Íslands fyrir fjölda flugfélaga um allan heim. „Afraksturinn af því samtali hefur leitt til þess að flugfélögin Edelweiss og Condor hafa séð tækifæri í því að hefja millilandaflug frá meginlandi Evrópu til flugvalla á Akureyri og Egilsstöðum, en áður hafi Transavia holland riðið á vaðið,“ segir hún. „Það má heldur ekki gleyma frumkvæði Niceair og mikilvægu innleggi þeirra í þessari vegferð því árangur eins vekur athygli annarra á nýjum flugleiðum.“

Nýjar flugleiðir urðu til í faraldrinum

Kóvid faraldurinn hafði mikil áhrif á flugheiminn og sköpuðust fjölmörg tækifæri í kjölfar hans, en miklar umbreytingar urðu hjá flugfélögum meðan á faraldrinum stóð. „Það urðu til nokkur þúsund nýjar flugleiðir í Evrópu eftir kóvid,“ segir Sigrún Björk. „Faraldurinn hafið mikil áhrif á öll flugfélög og getu þeirra, sum drógu úr sínum áætlunum en önnur breyttu um áfangastaði og flugleiðir. Á næstu misserum má ætla að þessi geiri nái ákveðnu jafnvægi á ný.“

Verkefnið hefur einnig verið kynnt í helstu flugtímaritum Evrópu, þ.e. hinar nýju gáttir til landsins um Norður – eða Austurland og segir Sigrún Björk að áfram verði haldið að kynna verkefnið til ársloka 2023. „Við munum taka stöðuna um mitt næsta sumar með þeim sem taka þátt og marka stefnu til næstu þriggja ára.“

Viðbygging sem verið er að reisa við Akureyrarflugvöll mun auka þægindi fyrir flugfarþega og auðvelda alla stýringu og flæði um bygginguna. „Þetta verkefni var sett af stað til að kynna nýja möguleika og aukið aðgengi að landinu og ég vonast til að með því náum við því markmiði að dreifa fjölda ferðamanna betur um landið, lengja dvalartíma þeirra á Norður- og Austurlandi og bæta nýtingu.“

 


Athugasemdir

Nýjast