Um 170 milljóna króna niðurskurður á fjárlögum til FSA á næsta ári

Skerða þarf þjónustu og fækka starfsfólki á FSA ef fram fer sem horfir. Mynd: Hörður Geirsson.
Skerða þarf þjónustu og fækka starfsfólki á FSA ef fram fer sem horfir. Mynd: Hörður Geirsson.

"Sá niðurskurður sem við okkur blasir á næsta ári er á mörkum þess að vera okkur ofviða," segir Þorvaldur Ingvarsson forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2012 er FSA ætlað að lækka rekstrarútgjöld um 1,7% sem þýðir um 170 milljónir króna á næsta ári. Þorvaldur segir að síðastliðinn þrjú ár hafi framlög lækkað um samtals 500 milljónir króna og gripið hafi verið til margvíslegra aðgerða til að mæta því.

Þá hafi starfsfólki sjúkrahússins fækkað um 40 á þessu tímabili. Gripið var til uppsagna á árinu 2008 en einkum hafi fækkun orðið í gegnum starfsmannaveltu. „Við höfum mikið hagrætt undanfarin ár en nú er svo komið að niðurskurði fyrir komandi ár verður ekki mætt á annan hátt en að leggja niður eða skerða þjónustu og fækka starfsfólki. Það er búið að hagræða eins og hægt er," segir Þorvaldur. Hann telur einnig fullvíst að álag á Sjúkrahúsið á Akureyri muni aukast á næsta ári, enda liggi fyrir að mikill niðurskurður verði á heilbrigðisstofnunum í nágrannasveitum, eins og Húsavík og Sauðárkróki. Íbúar þar muni því eflaust í meira mæli en áður leita eftir þjónustu á Akureyri.

„Okkur er gert að vinna eftir fjárlögum og að óbreyttu blasir við okkur 170 milljón króna niðurskurður á komandi ári. Sú staða gerir að verkum að við getum ekki útilokað að gripið verði til uppsagna, ég get ekki nú sagt fyrir um hversu mörg störf er um að ræða, en gætu verið á bilinu 10 til 15 stöðugildi. Vonandi nánum við að fækka starfsfólki áfram í gegnum starfsmannaveltu og við stefnum að því," segir Þorvaldur.

Hann bætir við að menn verði einnig að horfast í augu við þá nöpru staðreynd að leggja þurfi niður einhverja þá þjónustu sem í boðið hefur verið á Sjúkrahúsinu á Akureyri eða skerða hana. Engar ákvarðanir liggi fyrir í þeim efnum, en stjórnendur komu saman til fundar í gær og fóru yfir stöðuna og hvernig hægt er að bregðast við. „Við höfum fram til þessa getað haldið sama þjónustustigi og var, en nú er óhjákvæmilegt að skerða þjónustu og það er ömurleg staða," segir Þorvaldur.

Nýjast