Um 13% svarenda í könnun fyrir Einingu-Iðju ekki fengið kjarasamningsbundna hækkun
Á árlegum fræðsludegi hjá Einingu-Iðju sl. föstudag, voru kynntar frumniðurstöður launa- og þjónustukönnunar sem Capacent Gallup gerði fyrir félagið og AFL starfsgreinafélag. Eftir á að greina niðurstöður könnunarinnar frekar en Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju, segir að það komi verulega á óvart að rúmlega 13% þeirra sem svara segjast ekki hafa fengið taxtahækkun, eingreiðslu eða einhverja kjarasamningsbunda hækkun í kjölfar síðustu samninga. Þetta er grafalvarlegt mál sem þarf að kanna nánar.
Björn segir að það góða við þessa könnun, sem unnin var í samstarfi við AFL starfsgreinafélag, sé að nú verður hægt að bera saman þessi svæði, t.d. varðandi launakjör. Við getum nú líka borið okkur saman við Flóabandalagið (Eflingu, Hlíf og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis) því undanfarin ár hefur Capacent unnið fyrir þau svona könnun og voru einmitt að því á sama tíma og við í ár.
Fljótlega verður nánar sagt frá niðurstöðum könnunarinnar, það þarf m.a. að vinna betur úr svörum í sambandi við spurningar um laun. En það má alveg geta þess að 10,5% svarenda telja sig búa við lítið starfsöryggi, 42% hafa áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni, 85% segjast hafa dregið úr útgjöldum vegna fjárhagsstöðu eða hækkandi verðs á sl. 12 mánuðum. 58% sögðust hafa nýtt sér einhverja þjónustu hjá félaginu undanfarna 12 mánuði, 90% merktu við að þeir væru sáttir eða hvorki né, er spurt var hvort viðkomandi væri sáttur eða ósáttur við Einingu-Iðju og tæp 94% merktu við ánægður eða hvorki né, er spurt var hversu ánægður eða óánægður ertu með þjónustu Einingar-Iðju þegar á heildina væri litið.
Fræðsludagur á föstudag var fyrir starfsmenn, trúnaðarmenn og þá sem eru í trúnaðarstörfum fyrir félagið. Mætingin var mjög góð en mikill meirihluti þeirra sem fengu boð, á annað hundrað manns, sáu sér fært að mæta á Pósthúsbarinn á Akureyri, en fræðsla stóð yfir frá kl. 10:00 til 16:30. Anna Júlíusdóttir, formaður Matvæla- og þjónustudeildar félagsins, stjórnaði fundi og var Ása Margrét Birgisdóttir, varaformaður Opinberu deildar, henni til aðstoðar. Eftir að Anna hafði boðið alla velkomna kynnti Sigríður Ólafsdóttir, frá Capacent Gallup frumniðurstöður launa- og þjónustukönnunar sem Capacent Gallup gerði fyrir Einingu-Iðju og AFL starfsgreinafélag. Eftir góðan hádegisverð sem Veitingastaðurinn Strikið sá um fjölluðu þær Alice Harpa Björgvinsdóttir og Sigrún Vilborg Heimisdóttir, sálfræðingar frá Sálfræðiþjónustu Norðurlands, um erfiðleika, álag og sjálfsþekkingu. Því næst steig Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, í pontu og sagði frá siðareglum Einingar-Iðju og reglum félagsins varðandi risnu, gjafir og ferðakostnað. Bragi V. Bergmann, frá FREMRI Almannatengsl, lauk formlegri dagskrá þegar hann fjallaði á gamansaman hátt um samskipti á vinnustað.