Um 100 háskólamenntaðir án vinnu á Akureyri

Alls eru 808 manns á Norðurlandi eystra án atvinnu, 391 karl og 417 konur. Norðurland eystra er það svæði sem hefur náð hröðustum bata. Þar er nú 4,5% atvinnuleysi miðað við 6,8% á landsvísu. Án atvinnu á Akureyri eru 537, 258 karlar og 279 konur. Að fullu án atvinnu eru 410 manns, 227 karlar og 183 konur. Alls eru 127 manns, 76 karlar og 51 kona, á aldrinum 18-25 ára án atvinnu. Allt það fólk er í virkni, þar af yfir 100 manns í Virkinu í Rósenborg.

Á aldrinum 26-29 ára eru 79 manns án atvinnu, 34 karlar og 45 konur. Til stendur að vinna sérstaklega með þann hóp. Samtals 226 á aldrinum 30-55 ára eru án atvinnu, 90 karlar og 136 konur. Á aldrinum 56-70 ára eru 105 án vinnu, 58 karlar og 47 konur. Námskeið var haldið fyrir 60-70 ára í síðustu viku og var afar vel sótt. Samanburður sem gerður var á menntunarstöðu fólks á atvinnuleysisskrá sýnir að frá október 2009 til október 2011 hefur hlutfallið breyst. Háskólamenntuðum fjölgar úr 11% í 19%. Á Akureyri eru um 100 háskólamenntaðir án atvinnu. Iðnaðarmenn voru 14% en eru nú 9%. Flestir þeirra sem eru á skrá eru úr verslunar- og þjónustugeiranum, þetta kemur fram í fundargerð frá síðasta fundi almannaheillanefndar Akureyrarbæjar, sem haldinn var í byrjun þessa mánaðar.

Þar kemur einnig fram hjá fulltrúum Fagfélagsins og Einingar-Iðju, að nokkuð bjart útlit er hjá byggingamönnum og vinna hjá þeim að aukast. Verkefni á vegum bæjarins eru mikil og skipta máli. Á Akureyri kvarta menn helst yfir launum en á höfuðborgarsvæðinu er aðaláhyggjuefnið að halda vinnu. Mjög mikil ásókn er í sjúkrasjóði félaganna. Fólk er meðvitað um rétt sinn og mikið er spurt um útreikninga á desemberuppbót þessa dagana. Samkvæmt nýrri könnun kemur svæðið vel út í samanburði við aðra landshluta sé horft til heildarlauna.

 

 

Nýjast