Um 10% félaga í FVSA án vinnu eða í skertu starfshlutfalli

Um 10% félagsmanna í Félagi verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni er ýmist alveg án atvinnu eða býr við skert starfshlutfall. "Okkar félagsmenn hafa ekki farið varhluta af erfiðu þjóðfélagsástandi og atvinnuleysi, en  ástandið í samfélaginu bitnar af miklum þunga á okkar fólki, atvinnuleysi er mikið og þá hafa margir tekið á sig launa- og vinnutímaskerðingu á liðnum mánuðum," segir Úlfhildur Rögnvaldsdóttir formaður félagsins, en aðalfundur þess var haldinn í gærkvöld.  

Alls eru rúmlega 1200 virkir félagar í FVSA auk lífeyrisþega og um 120 félagsmenn búa við atvinnuleysi eða skert starfsfhlutfall. "Þetta er mjög hátt hlutfall, um 10% og nánast allir sem við þetta búa eru á Akureyri, einungis þrír utan bæjarins," segir  Úlfhildur.  Alveg frá því á liðnu hausti þegar efnahagskreppan skall á hafa vinnuveitendur samið við starfsfólk um vinnutímaskerðingu svo ekki þurfi að koma til uppsagna og fá þeir atvinnuleysisbætur á móti.  "Það er allt gott um það að segja, svo langt sem það nær, en mörg fjölmenn fyrirtæki hafa ekki getað staðið við að segja ekki upp fólki," segir Úlfhildur.

Hún segir að það fólk sem er í vinnu sé margt hvert mjög óttaslegið um framtíðina og hræðist að missa vinnuna.  Þá bjóði þessar kringumstæður sem nú eru ríkjandi upp á að starfsfólk láti ýmislegt yfir sig ganga sem ekki myndi viðgangast væri allt með felldu.  Þannig hafi starfsfólki til að mynda víða fækkað, aðrir tekið á sig skert starfshlutfall en engu að síður er ætlast til að það fólk sem er í vinnu skili sínu og stundum gott betur.  "Þetta þýðir bara að fólk vinnur undir miklu álagi, en vegna ótta við að vera sagt upp störfum lætur fólk það yfir sig ganga," segir Úlfhildur.

Hún segir að vitanlega voni menn að ástandið batni með hækkandi sól, en því miður spái t.d. hagfræðingar því að alvarlegt atvinnuleysi verið viðvarandi hér á landi næstu ári og þá fyrst og fremst í verslun og þjónustu.  "Það er langt í frá að hægt sé að tala um bjarta tíma framundan, en ef eitthvað fer af stað í verklegum framkvæmdum hér á svæðinu hefur það í för með sér afleidd störf á okkar vettvangi, í verslun og þjónustu," segir Úlfhildur.

Nýjast