Íbúar í Gerðahverfi á Akureyri og nálægum svæðum eru uggandi yfir fyrirhuguðum framkvæmdum bæjaryfirvalda í Kotárborgum. Í aðalskipulagi Akureyrarbæjar er gert ráð fyrir nýju hverfi í Kotárborgum og að þar muni rísa alls 260 nýjar íbúðir. Alvarlegar athugasemdir hafa verið gerðar við skipulagið af íbúum í hverfinu, þar sem m.a. er bent á að ný íbúabyggð muni eyðileggja frábært útivistarsvæði sem að hluta til er á náttúruminjaskrá og mikið nýtt af Akureyringum.
Bent er á að Kotárborgir séu klettaborgir þar sem jarðvegur er lítill sem enginn svo búast má við mikilli röskun og truflun fyrir nágranna á framkvæmdatíma þegar verktakar munu þurfa að sprengja og fleyga klöppina í 2-3 ár fyrir hvern húsgrunn.
Þá er einnig lagt til í skipulaginu að hverfisleikskólinn, Pálmholt, verði lagður niður og því enginn nálægur leikskóli í hverfinu.
Á morgun, þriðjudag verður íbúafundur í Hofi kl. 17:00 þar sem nýtt aðalskipulag Akureyrar verður rætt og búast við heitum umræðum um þetta tiltekna mál. Aðalskipulagið er á vinnslustigi og gefst íbúum kostur á að koma með ábendingar og athugasemdir áður en það fer í formlegt ferli. Frestur til þess rennur út fimmtudaginn 20. apríl.
Nánari umfjöllun um þetta mál verður í prentútgáfu Vikudags á fimmtudaginn kemur.