Tvöfalt lokunarhlið sett upp fyrir næsta vetur

Mynd frá Vegagerðinni. Tvöfalt hlið verður í sumar sett upp beggja vegna Öxnadalsheiðar og notað þeg…
Mynd frá Vegagerðinni. Tvöfalt hlið verður í sumar sett upp beggja vegna Öxnadalsheiðar og notað þegar loka þarf veginum vegna illviðris og ófærðar. Vonast er til þess að fólk hugsi sig um áður en það freistast þess að leggja á lokaða heiðina.

„Það má segja að það sé  fremur regla en undantekning að við rekumst á fasta bíla þegar mokstur hefst eftir lokanir,“ segir Grétar Ásgeirsson verkstjóri hjá Vegagerðinni á Akureyri.

Ófærðarhlið

Öxnadalsheiði var nýverið lokað vegna illviðris og snjóþunga og stóð lokun yfir í einn og hálfan sólarhring. Nokkur dæmi eru ævinlega um að vegfarendur sinni ekki lokunarskyldu, þeir freista þess að komast yfir lokaða heiðina og aka fram hjá hliðum sem loka heiðinni.  Sumir festa bíla sína og tefja með því snjómokstur, byrja þarf á að draga föstu bílana á brott áður en mokstur hefst.  „Það freistast alltaf einhverjir til að fara yfir. Síðast þurfum við að draga burtu fjóra bíla sem höfðu farið inn fyrir lokunarhliðið,“ segir Grétar.

Hugsa sig vonandi tvisvar um

Hann segir að nú í sumar verði sett upp ný hlið beggja vegna Öxnadalsheiðar sem lokar báðum akgreinum, ekki bara annarri eins og nú er. „Ætli við byrjum ekki á því verki þegar frost fer úr jörðu,“ segir hann. Tvöfalda hliðið verður því komið í gagnið þegar loka þarf heiðinni næsta vetur. Grétar segir að til að opna hliðið þurfi fólk að fara út úr bílunum, „og það verður vonandi til þess að það hugsi sig tvisvar um áður en það fer fram hjá lokunum.“

/MÞÞ


Nýjast