Tvímynntur

Svavar Alfreð Jónsson.
Svavar Alfreð Jónsson.

Á uppvaxtarárum mínum, fyrir daga samfélagsmiðla og Tenerife, var rafmangsleysið ein helsta tilbreytingin í vetrargrámanum. Ég ber á eigin holdi merki ósigurs viðgerðarflokks RARIK í baráttu hans við ísingu á rafmagnslínum, ör sem enn er sýnilegt. Á leið niður brattan stigann í gamla húsinu okkar í Brekkugötunni missti ég fótanna og steyptist ofan í biksvart rafmagnsleysismyrkrið.

Lending í blindflugi án siglingartækja er varasöm. Ég reyndi að vanda mig og beit í neðri vörina eins og ég geri gjarnan þegar einbeitingin er í hámarki. Tennurnar voru því læstar í hana þegar flugi lauk og á því augnabliki var líkamsstaða mín þannig að neðri vörin var ofar en sú efri. Við lendinguna kom högg á höfuðið sem þrýsti framtönnunum á bólakaf í holdið. Fjölskyldumeðlimir þustu að mér þar sem ég lá hljóðandi í blóði mínu á gólfinu. Ég var studdur inn í eldhús, settur í stól og vasaljósi beint að hökunni.

Sárið var þrifið  og þá sást að framtennurnar, hertar og flugbeittar eftir margra ára viðureign við ólseigar Akrakaramellur og glerharðan Flórubrjóstsykur, höfðu gengið alla leið í gegn. Kominn var á mig annar munnur og fór um foreldra mína sem töldu sig hafa nógu marga munna að metta í óðaverðbólgu þeirra ára. 


Nýjast