Tvímælalaust kostur að hafa valmöguleika við húsnæðiskaup
„Það er tvímælalaust kostur að hafa valmöguleika um óverðtryggð lán," segir Sigurður Sveinn Sigurðsson hjá
Fasteignasölunni Hvammi, en nú nýverið kynntu Arion banki og Íslandsbanki viðskiptavinum sínum sem eru í fasteignahugleiðingum þann
valkost að taka óverðtryggð íbúðalán á 6,45% vöxtum til 5 ára fyrir allt að 60% af markaðsvirði eignar.
Sigurður segir að eflaust muni einhverjir nýta sér þennan möguleika til endurfjármögnunar. Hann bendir einnig á að aðeins sé verið að bjóða 60% veðhlutfall á þessum betri vöxtum og aðeins til 5 ára. „Það ýtir kannski ekki sérstaklega við fólki í kauphugleiðingum en það er mikilvægt að hafa þennan valmöguleika," segir Sigurður.
Hann segir að fasteignamarkaðurinn hafi almennt verið með líflegra móti það sem af er þessu ári „og ekki er ástæða til að ætla annað en haustið verði einnig gott," segir Sigurður.