Tvíleikur í Höllinni í kvöld

Akureyringum og nærsveitungum býðst svo sannarlega glæsileg íþrótta- og menningarveisla í Höllinni í kvöld. Þá fara fram heimaleikir körfuboltaliðs Þórs gegn Grindavík og handboltaliðs Akureyrar gegn Fram. Körfuboltaleikurinn hefst kl.17:30 og handboltaleikurinn kl.19:30 en á milli leikja munu Hvanndalsbræður spila skemmtilega tónlist fyrir áhorfendur. Jón Orri Kristjánsson, leikmaður körfuboltaliðs Þórs segir erfiðan leik framundan gegn Grindavík. „Grindvíkingar eru ógnarsterkir og ef við ætlum að halda áfram að spila eins og í síðustu leikjum þá vinna þeir okkur með 100 stigum það er alveg ljóst. En við ætlum okkur að gera mun betur í þessum leik en undanfarið, við unnum þá í fyrra og við ætlum okkur að gera það aftur.”

Skyldi falldraugurinn ekkert vera farinn að banka á dyr hjá Þórsurum sem eru nú 4 stigum frá öruggu sæti í deildinni? „Við eigum svo fínt leikjaplan framundan þar sem að við ættum að mínu mati að geta nælt í mörg stig en ég viðurkenni að þetta tímabil núna er farið að minna óþægilega á tímabilið þegar við féllum síðast, mikið um meiðsl hjá lykilmönnum og fleira í þeim dúr. Við ætlum okkur hins vegar ekki að falla,” svaraði Jón Orri ákveðinn á svip.

Nær Akureyri að snúa blaðinu við?

Akureyri Handboltafélagi hefur ekki vegna vel að undanförnu og hefur liðið nú tapað 5 leikjum í röð í deildinni. Hafþór Einarsson, markvörður liðsins, segir erfitt að segja um hvað valdi því að liðinu hafi gengið illa að undanförnu, margt hafi verið reynt til að snúa genginu við en fátt gengið upp. „ Því trúi ég hins vegar og geri jafn framt ráð fyrir að við munum sigra okkar fyrsta leik í langan tíma í kvöld. Ég held að það sé komið að því að við stígum upp saman sem lið og nýtum okkur þennan frábæra stuðning sem við höfum hérna í bænum,” sagði Hafþór um leikinn. Nokkuð er um meiðsl í herbúðum Akureyringa, þeir Þorvaldur Þorvaldsson, Hörður Fannar Sigþórsson og Árni Sigtryggsson hafa allir átt við meiðsli að stríða og óvíst um hvort eða hve mikið þeir geta spilað í leik kvöldsins.

Nýjast