Flogið var sjúkraflug frá Akureyri til Grænlands sl. fimmtudag á sérútbúinni flugvél Mýflugs. Í áhöfn voru tveir flugmenn frá Mýflugi, tveir neyðarflutningamenn frá Slökkviliðinu á Akureyri og tveir fluglæknar frá Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þetta er í fyrsta skipti sem fluttir eru tveir gjörgæslusjúklingar með sérútbúinni sjúkraflugvél Mýflugs og má því segja að þetta hafi verið ákveðin þolraun á búnaði vélarinnar þar sem tæki og búnaður voru nýtt til hins ýtrasta. Óhætt er að segja að búnaðurinn hafi staðist þá þolraun.
Farið var frá Akureyri kl. 12:20 og lent á flugvellinum í Kulusuk kl. 14:20. Þar var hafist handa við að selflytja allan þann búnað sem nota þurfti í þyrluflug yfir til Ammassalik þar sem tveir sjúklingar biðu. Þyrlan flutti báða læknana og neyðarflutningsmennina ásamt búnaði yfir til Ammassalik og lenti síðan við spítalann í Ammassalik kl 14:50. Sjúklingarnir voru báðir gjörgæslusjúklingar þ.e. voru báðir í öndunarvél, með sprautudælur og í monitor. Aðeins var hægt að flytja annan sjúklingin í einu í þyrlunni og þurfti því að fara tvær ferðir. Þegar komið var með fyrri sjúklinginn á flugvöllinn í Kulusuk var veðrið farið að versna og veðurspáin var ekki glæsileg, en spáð var hvössum vindi allt að 70 hnútum í hviðum og snjókomu. Seinni sjúklingurinn lenti svo á flugvellinum á Kulusuk um kl. 16:20 og fór sjúkraflugvélin í loftið frá Kulusk áleiðis til Reykjavíkur kl. 16:40. Flugið til Reykjavíkur gekk vel, lent var á Reykjavíkurflugvelli um kl. 18:45 en þar biðu tveir sjúkrabílar sem fluttu sjúklingana á gjörgæsludeild LSH í Fossvogi. Það voru þreyttir en sáttir ferðalangar sem lentu á Akureyrarflugvelli, heimahöfn sjúkraflugvélarinnar, um kl. 21:00. Þetta kemur fram á vef Slökkviliðs Akureyrar.