Tvær loftgæðamælistöðvar settar upp á Húsavík

Helga Sveinbjörnsdóttir verkfræðingur hjá PCC Bakki Silicon hf, hefur fyrir hönd fyrirtækisins, sótt um leyfi til að setja niður tvær mælistöðvar loftgæða innan lands Húsavíkur.
Önnur stöðin yrði í Húsavíkurleiti sunnanverðu og hin við Héðinsvík. Á hvorum stað yrði reist lítið hús (um 2,4 m²) með búnaði til loftmælinga. Girt yrði umhverfis húsin. Stöðvarnar yrðu reknar í tengslum við umhverfisvöktun PCC BakkiSilicon hf og innan þeirra munu fara fram ýmsar veður- og loftgæðamælingar.
Fyrirhugað er að koma búnaðinum upp nú í haust til að safna grunngildum loftgæða áður en rekstur verksmiðju hefst. Staðsetning mælistöðva hefur verið valin í samráði við Umhverfistofnun, skipulagsfulltrúa Norðurþings og fulltrúa RARIK. Skipulags- og umhverfisnefnd Norðurþings telur fyrirhuguð mannvirki nauðsynleg vegna reksturs verksmiðju á Bakka og samþykkti því niðursetningu búnaðarins. JS