Símenntun Háskólans á Akureyri útskrifaði 20 nemendur úr Svæðisleiðsögunámi á Norðurlandi sl. föstudag og tveir til viðbótar munu ljúka náminu í vor. Svæðisleiðsögunámið, sem var haldið í samstarfi við Leiðsöguskólann, byggði á námskrá fyrir leiðsögunám sem gefin er út af menntamálaráðuneytinu. Markmið námsins var að búa nemendur undir að fylgja ferðamönnum um Norðurland og að standast kröfur ferðaþjónustunnar um áreiðanleika og fagleg vinnubrögð.
Svæðisleiðsögunámið sem stóð yfir síðastliðin tvö misseri var fjölbreytt. Fjallað var um og atvinnuvegi, jarðfræði, sögu, menningu, ferðamannastaði og leiðsögutækni svo nokkuð sé nefnt og komu margir kennarar og sérfræðingar í ferðaþjónustu að því. Kennt var vikulega síðdegis síðastliðið ár eftir hefðbundinn vinnudag og farnar vettvangsferðir um svæðið með SBA - Norðurleið. Námið var að hluta til í fjarkennslu hjá Farskólanum á Sauðárkróki og á svæði Þekkingarnets Þingeyinga, segir í fréttatilkynningu.