Tuttugu milljóna króna fjárveiting til GA samþykkt

Golfvöllur GA að Jaðri. Mynd: Hörður Geirsson.
Golfvöllur GA að Jaðri. Mynd: Hörður Geirsson.

Meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar samþykkti á bæjarstjórnarfundi í gær, 20 milljóna króna fjárveitingu til Golfklúbbs Akureyrar (GA) sem ekki er á fjárhagsáætlun ársins 2011 en er í samræmi við gildandi samning milli Akureyrarbæjar og GA dags. 26. mars 2007 með viðauka dags. 9. desember 2009. Tillagan var samþykkt með atkvæðum sex bæjarfulltrúa L-listans gegn fimm atkvæðum fulltrúa minnihlutaflokkanna.

Hermann Jón Tómasson S-lista óskaði bókað á fundi bæjarstjórnar: “Sú tillaga sem hér er til afgreiðslu var í raun afgreidd af meirihluta L-listans án samráðs við bæjarstjórn eða bæjarráð snemma á þessu ári.  Ég tek ekki þátt í að skrifa upp á ákvarðanir sem teknar eru með þessum hætti og greiði því atkvæði gegn henni.”

Guðmundur Baldvin Guðmundsson B-lista óskaði bókað: “Með vísan til málsmeðferðar og vinnubragða meirihlutans í máli þessu greiði ég atkvæði gegn þessari tillögu.”

Fulltrúar meirihlutans óskuðu bókað: “Meirihluti bæjarstjórnar hefur reynt að fá samningi milli Akureyrarbæjar og Golfklúbbs Akureyrar frá 26. mars 2007 með viðauka dags. 9. desember 2009 breytt en ekki tekist þar sem samningnum verður ekki breytt einhliða. Engin ákvæði eru í samningnum að fjárveitingar vegna hans taki mið af fjárhagsáætlun hverju sinni eins og oft tíðkast.”

Á fundi bæjarráðs þann 8. september sl. kom fram tillaga frá bæjarfulltrúa Sigurði Guðmundssyni A-lista að vísa umræðu um gildandi samning milli Akureyrarbæjar og Golfklúbbs Akureyrar til bæjarstjórnar og var tillagan samþykkt.

 

Nýjast