Tuttugasta ráðstefna NordMedia haldin á Akureyri
Í ár er spurt í yfirskrift hvort fjölmiðlafræði og fjölmiðlarannsóknir séu að skoða það sem máli skiptir. Mikill fjöldi erinda verður fluttur á ráðstefnunni sem skiptist upp í 11 málstofur og eru viðfangsefni fræðimannanna mjög fjölbreytt og tengjast m.a. rannsóknum á blaðamennsku, stjórnkerfi fjölmiðla, áhrifum fjölmiðla á samfélagið og síðast en ekki síst breytingum sem orðið hafa á fjölmiðlum vegna tækniframfara, internetsins og annarrar stafrænnar miðlunar. Ráðstefnan verður sett í Hofi á morgun, fimmtudag kl. 18. Að lokinni setningu mun John Durham Peters prófessor við Iowaháskóla í Bandaríkjunum flytja erindi um gamla og nýja tegund fjölmiðlunar og hvernig nýmiðlun og hefðbundin miðlun takast á og blandast saman í samtímanum.
Á föstudag og laugardag verða málstofur í Háskólanum á Akureyri. Síðdegis á föstudag heldur Cristina Kaindl, sálfræðingur, stjórnmálafræðingur og ritstjóri fræðitímaritsins „Luxemburg"erindi. Þar mun hún m.a. fjalla um það hvernig breyttir framleiðsluhættir markaðssamfélagsins birtast í fjölmiðlum og kvikmyndum og mótar síðan hugmyndir fólks um sjálft sig. Einnig hvernig markaðsvæðingin skilgreinir hugmyndir um einkalíf og sjálfsmynd fólks og birtist m.a. í raunveruleika- og „make-over" þáttum. Ráðstefnunni lýkur á laugardagskvöld.