Stapi lífeyrissjóður hefur orðið af tugum milljóna í leigutekjur vegna fjölbýlishúss sem hefur staðið autt svo mánuðum skiptir. Rúv greindi frá þessu. Þar segir að Stapi hafi keypti 35 íbúða blokk í Undirhlíð á Akureyri og var stefnan að leigja íbúðirnar út. Blokkin var keypt af verktaka og var fullbúin í ágúst. Þegar skipt var um stjórnendur hjá Stapa var hætt við að leigja út íbúðirnar og ákveðið að selja blokkina í heilu lagi.
Það hefur hins vegar ekki gengið og nú, um hálfu ári seinna, hefur enginn flutt inn í blokkina og því stendur hún enn tóm. Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa, segir í samtali við Rúv að söluferli hafi verið langt komið fyrir áramót en ekki hafi tekist að ljúka því. Nú á að reyna að selja íbúðirnar hverja fyrir sig.
Íbúðirnar eru á bilinu 60 til 130 fermetrar. Ef meðalleiguverð væri 160 þúsund krónur á mánuði, í samræmi við markaðsverð, þá eru um 34 milljónir sem ekki hafa skilað sér í tekjur frá því blokkin var tilbúin, á meðan sjóðurinn þarf að borga hita, rafmagn, fasteignagjöld og fleira, segir á vef Rúv.