Stefán heitinn Jónsson, fréttamaður, veiðimaður og þingmaður með meiru, var einstaklega orðheppinn í ræðu og riti og jafnan fljótur til svars á framboðsfundum. Þegar Stefán var í framboði fyrir Alþýðubandalagið á Norðausturlandi, mætti hann á opinn framboðsfund á Húsavík og flutti þar tölu mergjaða. Spratt þá upp í salnum ungur framsóknarmaður, Hafliði Jósteinsson, og stormaði í pontu. Þar lýsti hann því yfir að Framsókn þyrfti sko ekki að óttast fylgisstap til Allaballa, sem þyrftu að dragnast með kallinn með tréfótinn í kosningabaráttunni.
Stefán sat glottandi undir þessum boðskap, en staulaðist svo á sínum staurfæti í pontu og sagði að sér vitanlega hefði Alþýðubandalagið ekki þurft að gjalda fylgis fyrir umræddan tréfót. “Hinsvegar á Framsóknarflokkurinn á Húsavík alla mína samúð, að þurfa að dragnast með þennan unga mann með tréhausinn um ókomna tíð!”
Sagði Stefán Jónsson og galt þarna heldur betur rauðan belg fyrir gráan. JS