Tréhaus eða tréfótur í framboði á Norðausturlandi?

Hafliði Jósteinsson t.v. ásamt öðrum knattspyrnumanni, Leeds goðsögninni Eddie Gray. Mynd: Aðalstein…
Hafliði Jósteinsson t.v. ásamt öðrum knattspyrnumanni, Leeds goðsögninni Eddie Gray. Mynd: Aðalsteinn Árni Baldursson.

Stefán heitinn Jónsson, fréttamaður, veiðimaður og þingmaður með meiru, var einstaklega orðheppinn í ræðu og riti og jafnan fljótur til svars á framboðsfundum. Þegar Stefán var í framboði fyrir Alþýðubandalagið á Norðausturlandi, mætti hann á opinn framboðsfund á Húsavík og flutti þar tölu mergjaða. Spratt þá upp í salnum ungur framsóknarmaður, Hafliði Jósteinsson, og stormaði í pontu. Þar lýsti hann því yfir að Framsókn þyrfti sko ekki að óttast fylgisstap til Allaballa, sem þyrftu að dragnast með kallinn með tréfótinn í kosningabaráttunni.

Stefán sat glottandi undir þessum boðskap, en staulaðist svo á sínum staurfæti í pontu og sagði að sér vitanlega hefði  Alþýðubandalagið ekki þurft að gjalda fylgis fyrir umræddan tréfót. “Hinsvegar á Framsóknarflokkurinn á Húsavík alla mína samúð, að þurfa að dragnast með þennan unga mann með tréhausinn um ókomna tíð!”

Sagði Stefán Jónsson og galt þarna heldur betur rauðan belg fyrir gráan. JS

 


Nýjast