Tré láta ekki blekkjast af hlýindum
Hlýindin að undanförnu hafa engin áhrif á gróðurfar, nema helst jákvæð, vætan er t.d góð, gerir það að verkum að trjágróður er betur undirbúin fyrir veturinn, segir Valgerður Jónsdóttir framkvæmdastjóri Norðurlandsskóga. Á þessum árstíma þegar dagur er svona stuttur láta trén ekki blekkjast af hlýindum, ef það væri mars hefði maður frekar áhyggjur. Veðrið hefur svo sannarlega leikið við landsmenn undanfarna daga og sést hafa hitatölur sem Akureyringar hefðu eflaust gjarnan viljað sjá í kuldakastinu sem gekk yfir í byrjun sumars.
Gott veður í nóvember er þó ekki einsdæmi, en nefna má að í veðurfarsyfirliti Veðurstofunnar kemur fram að 17 stiga hita mældist á Akureyri 11. nóvember árið 1999 en þá hafði ekki mælst svo mikill hiti á svipuðum árstíma og á árinu 1964, en 3. nóvember það ár náði hiti 17,6 stigum.