Topp 5 listi vikunnar er klár:
Kristjana Hákonardóttir heiti ég og er verkefnastjóri vef- og kynningarmála við Háskólann á Akureyri. Fædd og uppalin á Akureyri, komin yfir þrítugt, tiltölulega nýflutt aftur til Akureyrar eftir nokkur ár í Reykjavík og er elst sjö systkina. Ég veit fátt betra en að hlæja, sem við Árni kærastinn minn gerum mikið af. Þess vegna á þessi áskorun Óskars vel við mig.
Mikið hefur gengið á í íslenskum stjórnmálum síðustu daga og því um að gera að hressa sig við með góðri gamanmynd af þessum lista. Það eina sem vantar mögulega á hann er Naked Gun.
Kristjana skorar á Brynjólf Þór Guðmundsson fréttamann hjá RÚV á Norðurlandi að koma með topp 5 lista við Akureyri. Það má segja að hann sé nýbúi á Akureyri, hann er t.d. nýlega búinn að uppgötva gildi Bérnaise-sósunnar.
Mjög skemmtileg mynd með óvæntri fléttu í lokin. Ég er mikill aðdáandi Ryan Gosling. Féll fyrir honum í myndinni Drive. Lengi vel var ég með mynd af honum sem skjástillu á símanum mínum og héldu flestir að þetta væri mynd af Árna kærastanum mínum. Ekki amalegt það. Emma Stone leikur líka í þessari mynd, hún er í miklu uppáhaldi. Það sama má líka segja um Steve Carell, Kevin Bacon og Julianne Moore, topp leikarar í þessari mynd.
Harpa vinkona mín kynnti mig fyrir þessari frábæru mynd sem kom svo sannarlega á óvart. Harpa var mikið búin að tala um myndina og fannst alltaf jafn ótrúlegt að ég væri ekki búin að sjá hana. Mér fannst líka jafn ótrúlegt að indversk mynd sem er 3 klukkutímar væri svona skemmtileg. Á endanum bauð hún í videokvöld og ég kolféll fyrir þessari stórundarlegu en krúttlegu mynd sem fær mann til að skellihlæja.
Það getur verið mikil þolraun að horfa á kappana Frank og Casper fara yfir öll velsæmismörk og ég mæli alls ekki með þessari mynd fyrir þá sem móðgast auðveldlega. Ég fæ bara ekki nóg af ruglinu í þeim og er forfallinn aðdáandi Klovn þáttanna. Ég er líka svo heppin að þekkja tvo drengi sem svipar mjög til þeirra Frank og Casper og hafa ótrúlega sögur að segja sem skilja mann eftir með ótal spurningar og grenjandi af hlátri.
Stórkostleg grínmynd sem fær alla til að skella upp úr og vilja verða unglingar aftur. Myndin er frábærlega skrifuð af þeim Seth Rogen og Evan Goldberg sem skrifuðu báðir fyrir Da Ali G Show þar sem ferill þeirra byrjaði. Það var líka í þessari mynd sem Jonah Hill stimplaði sig inn sem einn af efnilegustu gamanleikurum þessa tíma og hefur tekið hvert gamanhlutverkið eftir annað.
Dásamleg frönsk mynd sem lætur mann upplifa allan tilfinningaskalann en fyrst og fremst er hún hress og bráðfyndin. Hún fór sigurför um heiminn og sló í gegn í hverju landinu á fætur öðru, nema í Bandaríkjunum. Það þýðir að sjálfsögðu að nú á að endurgera hana og umdeildar sögusagnir segja að Bryan Cranston úr Breaking Bad og Kevin Hart úr Get Hard taki aðalhlutverkin.