Topp 5 listi vikunnar: Eftirréttir

Mynd: vinotek.is
Mynd: vinotek.is

Topp 5 listamaður vikunnar er Óskar Þór Vilhjálmsson tæknimaður samskiptamiðstöðvar í Háskólanum á Akureyri. Óskar Þór er ættaður frá Bakka í Svarfaðardal, hann er 41 árs og kvæntur Auði Thorberg Jónasdóttur. Saman eiga þau tvær stelpur, Minnu Kristínu 10 ára og Lilju Karlottu 7 ára. Fjölskyldan býr á Öldu í Eyjafjarðarsveit og eru með nokkrar íslenskar hænur, endur, kornhænur og silkihænupar.

Óskar Þór skorar á Kristjönu Hákonardóttur verkefnastjóra vef- og kynningarmála í Háskólanum á Akureyri að koma með sinn topp 5 lista yfir gamanmyndir sem hún hefur séð. 

Hér eru topp 5 eftirréttir Óskars:

5. Brynjuís með mokkasósu

Þennan eftirrétt hef ég fengið í óteljandi skipti síðan ég kynntist konunni minni þar sem hann hefur oftast orðið fyrir valinu hjá tengdó þegar þau áttu að redda eftirrétti. Rétturinn samanstendur af einum lítra af hvítum Brynjuís og kaldri mokkasósu, af því að það fylgir alltaf ein köld sósa með.

 4. Íslensk bláber með rjóma

Þessi eftirréttur ætti að vera kallaður íslenski eftirrétturinn. Hann samanstendur af íslenskum bláberjum, sem týnd voru með berum höndum á köldum sumardegi, og ísköldum rjóma frá íslenskum bændum sem hafa tutlað mjólkina úr íslenska kúastofninum dropa fyrir dropa. Ekki er verra að strá sykri yfir allt saman en það er ekki nauðsynlegt.

 3. Heimagerður jólaís með marssósu

Þessi eftirréttur er á listanum af því hann er einn af föstu punktunum í tilverunni. Þetta er heimalagaður ís sem tengdapabbi gerir um hver jól, oftast seint á Þorláksmessukvöldi. Ísinn er borinn fram á aðfangadagskvöld þegar búið er að taka upp pakkana og er þá höfð sósa með sem er búin til úr marssúkkulaði

2. Royal karamellubúðingur með þeyttum rjóma

Þetta er nostalgíu eftirréttur sem ég geri of sjaldan í seinni tíð. Þennan rétt gerðum við Baldur frændi á Bakka saman þegar amma var ekki heima til að elda. Við settum einn lítra af súrmjólk í skál og pakka af Royal karamellubúðingi út í. Þá hrærðum við þetta vel saman með hrærivél. Því næst brytjuðum við epli og banana út í og stundum appelsínur eða rúsínur og settum svo í ísskápinn. Þetta bárum við svo fram eftir aðalréttinn því það var jú alltaf tvírétta í sveitinni í gamla daga.

 

 1. Volg marengskaka með nýlöguðu kúmenkaffi

Þegar við eldum lambakjöt frá tengdó, sem er besta lambakjöt í heimi, gerir frúin oftar en ekki bérnaisesósu og notar þá eggin frá íslensku hænunum okkar. Í sósuna notast bara eggjarauður svo hvítan verður eftir og er þá ekkert annað en að þeyta hvítuna í marengs og skella í ofninn eftir að búið er að taka kjötið út. Eftir að búið er að gera lambinu skil helli ég upp á kaffi og finnst mér þá gott að setja heimaræktað kúmen út í baunirnar áður en ég mala þær. Þegar kaffið er tilbúið er fullkomið að setja örlítið af flóaðri mjólk út í og drekka það svo með volgri marengsköku beint úr ofninum.

Nýjast