Tónverkið Draumur Manúelu, eftir Jón Hlöðver Áskelsson, verður flutt af hinum snjalla flautuleikara, Áshildi Haraldsdóttur og Íslenska flautukórnum á tónleikum Áshildar í Hörpu kl. 22 í kvöld, föstudagskvöld. Tónleikarnir verða teknir upp og verður útvarpað á Rás 1, í þættinum Ópus kl. 21.10 n.k. mánudagskvöld. Þetta verk er nú flutt í þriðja skipti af Áshildi og átta manna flautukór, eða Íslenska flautukórnum. Verkið var frumflutt af sömu listamönnum 16. júlí sl. í Skálholti og hefur hrifið marga áheyrendur fram til þessa.
Talsvert er nú umleikis hjá Jóni Hlöðver, því að sunnudaginn 5. febrúar nk. mun Víkingur Heiðar Ólafsson frumflytja sex píanólög eftir hann í menningarhúsinu Hofi, á fyrstu einleikspíanótónleikum sem þar fara fram. Á efnisskránni verða einnig m.a. Pathetique sónata Beethovens, sónata í a-moll eftir Mozart, einnig íslenskar söngperlur í þeim hrífandi búningi sem Víkingur Heiðar sníður þeim.