Tónleikar Kammerkórs Norðurlands í Siglufjarðarkirkju

Kammerkór Norðurlands heldur tónleika í Siglufjarðarkirkju á sunnudaginn kemur kl. 17.00. Á efnisskránni eru eingöngu lög við texta Halldórs Laxness í tilefni af 110 ára afmælis skáldsins. Á tónleikunum verða flutt kórverk eftir fjölda íslenskra tónskálda, bæði gömul og ný. Tónleikarnir á Siglufirði eru eins konar inngangur kórsins að tónleikum sem kórinn heldur í Hörpu sunnudaginn 22. apríl í tengslum við sérstaka hátíðardagsskrá sem safnið að Gljúfrasteini stendur fyrir dagana frá 19. apríl til 9. maí.

Mörg íslensk tónskáld hafa samið tónverk sérstaklega fyrir Kammerkór Norðurlands. Má þar nefna Snorra Sigfús Birgisson, Báru Grímsdóttur, Hauk Tómasson og Hildigunni Rúnarsdóttur. Mörg tónskáld hafa einnig samið tónlist við texta Halldórs Laxness og er nú sótt í þann brunn. Í tilefni afmælishátíðar skáldsins hafði kórinn samband við tónskáldin Hróðmar Inga Sigurbjörnsson og Hauk Tómasson, sem nú hafa samið ný lög við ljóð Nóbelsskáldsins. Auk þess er sótt í smiðju Jóhanns G. Jóhanssonar og verða þrjú lög eftir hann frumflutt á tónleikunum.

Tilgangur og markmið Kammerkórs Norðurlands er að flytja íslenska kórtónlist, koma henni á framfæri og sýna fram á gæði og gildi hennar. Ekki síður er hlutverk kórsins að gefa tónlistarmenntuðum og metnaðarfullum einstaklingum í hinum dreifðu byggðum Norðurlands tækifæri til þátttöku í krefjandi kórstarfi og miðlun góðrar tónlistar sem eflir menningarlíf landsins. Kórmeðlimir búa á svæði sem spannar allt frá Sáuðárkróki til Kópaskers og leggja meðlimir hans því mikið á sig til að stunda æfingar og tónleikahald með kórnum. Jafnvel hátt eldsneytisverð kemur ekki í veg fyrir að kórfélagar láti þennan draum rætast.

Nýjast