Tónleikar í tilefni af 50 ára afmæli orgels Akureyrarkirkju

Í tilefni af 50 ára afmæli orgels Akureyrarkirkju verða hátíðartónleikar í kirkjunni í kvöld, sunnudaginn 20. nóvember kl. 20.00. Björn Steinar Sólbergsson fyrrverandi organisti Akureyrarkirkju og jafnaldri orgelsins flytur verk eftir Bach, Guilmant, Liszt, Alain, Tournemire og Pál Ísólfsson og er aðgangur ókeypis. Orgel Akureyrarkirkju var vígt í guðsþjónustu síðasta sunnudag fyrir aðventu 1961.
Jakob Tryggvason, organisti kirkjunnar, lék þá á orgelið. Fjársöfnun hafði staðið yfir í 9 ár og var pantað fullkomið hljóðfæri frá þýsku orgelverksmiðjunni G.F. Steinmeyer & Co. Var orgelið stærsta orgel landsins allt til ársins 1993. Þegar orgelið var vígt stóð til að dagskráin yrði þannig að orgelið yrði vígt í messu kl. 14, kaffisamsæti yrði eftir messu og tónleikar um kvöldið. Ekkert varð úr þessum ráðagerðum eins og þær voru hugsaðar, en nú á 50 ára afmælinu mun þessi dagskrá halda sér. Á afmæli orgels kirkjunnar verður hátíðarmessa kl. 14, eftir messu verður kaffisala Kvenfélags kirkjunnar og orgeltónleikarnir um kvöldið.
Björn Steinar Sólbergsson er organisti við Hallgrímskirkju í Reykjavík. Hann er listrænn stjórnandi Alþjóðlegs orgelsumars í Hallgrímskirkju og tekur virkan þátt í blómlegu listastarfi kirkjunnar. Hann er einnig skólastjóri við Tónskóla Þjóðkirkjunnar þar sem hann kennir jafnframt orgelleik. Björn Steinar stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann á Akranesi og Tónskóla þjóðkirkjunnar í Reykjavík. Hann starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju í 20 ár þar sem hann vann markvisst að uppbyggingu tónlistarstarfs við kirkjuna.
Björn Steinar hefur haldið fjölda einleikstónleika hér heima og erlendis og leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammerhljómsveit Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og The Cleveland Institute of Music Orchestra. Hann hefur hljóðritað fyrir útvarp og sjónvarp og á geislaplötur, m.a. öll orgelverk Páls Ísólfssonar. Björn Steinar hlaut Menningarverðlaun DV 1999, Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2001 og var valinn bæjarlistamaður Akureyrar 2002.