Tónleikar á bökkum Sundlaugar Akureyrar í kvöld

Samband íslenskra framhaldsskólanema stendur fyrir sérstökum tónleikum á bökkum Sundlaugar Akureyrar í kvöld frá klukkan 19.30 til 22.30. Fram koma hljómsveitirnar Bróðir Svartúlfs, Árstíðir, Nammidagur og Yoda Remote. Öll meðferð áfengis eða annarra vímuefna er að sjálfsögðu stranglega bönnuð eins og alltaf áður í Sundlaug Akureyrar og aðgangseyrir er 450 krónur.  

Að sögn fulltrúa Sambands íslenskra framhaldsskólanema er meginmarkmiðið með tónleikunum að skemmta framhaldsskólanemum á uppbyggilegan hátt og koma í veg fyrir óæskilega vímuefnanotkun. Söngkeppni framahaldsskólanna verður haldin í Íþróttahöllinni annað kvöld, laugardagskvöld, og þrátt fyrir prýðilega hegðan velflestra gesta hennar, hefur endrum og sinnum borið á nokkrum skrílslátum. Með því að halda tónleika á sundlaugarbakkanum og sjá til þess að framhaldsskólanemar hafi eitthvað fyrir stafni er vonast til að hægt verði að sporna við slíkri hegðan. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Nýjast