Töluvert um bókanir í beint flug til og frá Akureyri um Keflavíkurflugvöll

Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair flutti fyrirlestur í HA í gær.
Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair flutti fyrirlestur í HA í gær.

Icelandair mun bjóða upp á flug til og frá Akureyri um Keflavíkurflugvöll á ýmsa áfangastaði sína í Evrópu og Bandaríkjunum í sumar. Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, segir  að töluvert hafi verið um bókanir en til þessa hafi um 90% bókana komið frá útlendingum. Hann segir að aðalbókunartíminn sé þó framundan, í þessum og næsta mánuði. Viðskiptavinir bóka flugið og innrita sig alla leið. Flogið verður allt að fjórum sinnum í viku frá 7. júní til 30. september 2012. Á Keflavíkurflugvelli er góð tenging við helstu áfangastaði Icelandair.

Birkir Hólm flutti fyrirlestur á málþingi í Háskólanum á Akureyri í gær, sem bar yfirskriftina: Þróun og horfur í ferðaþjónustu. Þar fór hann yfir starfsemi Icelandair, sem hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum, sagði frá nýjum áfangastöðum félagsins og hversu gríðarlega miklu máli þeir skipta fyrir íslenska ferðaþjónustu. Einnig kom Birkir inn á flugið til og frá Akureyri um Keflavíkurflugvöll, sem hann sagði að skipta svæðið hér fyrir norðan gríðarlegu máli. Í boði verða 6.300 sæti og nefndi Birkir sem dæmi að í beinu flugi til Akureyrar erlendis frá væru 1.800 sæti í boði í sumar. Hann sagði frá Norðurljósaverkefni Icelandair fyrr í vetur, sem teygði anga sína til Akureyrar og víðar um svæðið. Flogið var til Keflavíkur frá London og komu um 800 ferðamenn til landsins í þessari fyrstu tilraun. Ferðamennirnir gistu eina nótt í Reykjavík, komu svo norður með Flugfélagi Íslands, gistu tvær nætur á Akureyri og svo aftur eina nótt í Reykjavík á leið sinni út aftur. Birkir sagði að þetta hafi verið liður í því að auka ferðamannastrauminn utan hefðbundins ferðamannatíma og að svona nýsköpunarverkefni væru gríðarleg mikilvæg fyrir alla aðila.

Það var viðskipta og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri sem bauð til málþingsins, í samstarfi við Rannsóknamiðstöð ferðamála, í tilefni af 25 ára afmæli HA. Í pallborði sátu auk Birkis, þau Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri,  Ásbjörn Björgvinsson, forstöðumaður Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi, Bryndís Óskarsdóttir, sem rekur Gistiheimilið Skjaldarvík og Halla Björk Reynisdóttir, stjórnarformaður Akureyrarstofu. Fundarstjóri var Helgi Gestsson, lektor við viðskiptadeild HA. Nánar verður fjallað um málþingið í Vikudegi í næstu viku.

 

 

Nýjast