Töluvert um akstur undir áhrifum fíkniefna á Akureyri
Á sama tíma í fyrra höfðu 33 verið teknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna en 28 vegna ölvunaraksturs. Það eru því svipaðar tölur milli ára í fíkniefnaakstri á meðan það dregur úr ölvunarakstri. Ef farið aftur til ársins 2007 má sjá að fyrstu sex mánuði ársins voru 6 teknir fyrir fíkniefnaakstur en 57 fyrir ölvunarakstur. Það er því töluverð breytt þróun þar sem verulega hefur dregið úr ölvunarakstri undanfarin ár, en fíkniefnaakstur hefur aukist.
Guðmundur Svanlaugsson rannsóknarlögreglumaður á Akureyri segir að þetta megi hugsanlega rekja til þess að menn séu orðnir meðvitaðri um akstur undir áhrifum fíkniefna, auk þess sem tæknibúnaður lögreglu er meiri. „Nú eru lögreglumenn opnari fyrir því að það er ekki eingöngu keyrt undir áhrifum áfengis. Svo fengum við búnað fyrir þremur árum sem gerir það að verkum að þegar ökumenn hafa pissað í glas að þá kemur í ljós eftir fimm mínútur hvort fíkniefni leynist í þvaginu. Það hefur samt dregið úr fíkniefnaakstri frá árinu 2009 en það var algjör sprengja það ár," segir Guðmundur.