Í tilefni af Mottumars átaki Krabbameinsfélagsins hefur listamaðurinn Tolli ákveðið í samstarfi við uppboðsvefinn Viggosson.com að standa fyrir uppboði á einu af verkum sínum í marsmánuði eða á meðan átakinu Mottumars stendur. Fimmtudaginn 29. mars nk. stendur svo Klúbbur matreiðslumeistara á Norðurlandi, í samstarfi við Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis, að Mottuboði í menningarhúsinu Hofi kl. 20.00. Aðgangseyrir, kr. 1.500 - rennur óskiptur til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.
Mig langaði að taka þátt í Mottumars með þeim hætti sem ég er þekktastur fyrir og voru Viggosson menn tilbúnir í að vinna þetta með mér, segir Tolli. Helmingur ágóðans af sölu verksins mun renna til Krabbameinsfélagsins og átaksins Mottumars. Um er að ræða olíumálverk sem listamaðurinn málaði á síðasta ári og ber nafnið Tengls.
Tilgangur Mottuboðs Klúbbs matreiðslumeistara á Norðurlandi, er að vekja athygli á krabbameini karla, stuðla að forvörnum og styrkja starf Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Við innganginn verður Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis með kynningu á starfsemi sinni og fræðslu um krabbamein og krabbameinsleit. Klúbbur Matreiðslumeistara á Norðurlandi, í samstarfi við fjölmarga birgja og veitingastaði, stendur fyrir öllum veitingum, þar sem meðlimir klúbbsins í hinum ýmsu eldhúsum á Norðurlandi reiða fram fjölbreyttan veislumat eins og hann gerist bestur. Skemmtiatriði verða fjölmörg og má þar m.a. nefna Karlakór Akureyrar Geysi, Hund í óskilum, þjóðþekkta hagyrðinga og uppboð Sigga Gumm á listmunum norðlenskra listamanna. Veislustjóri verður Sigurvin Fíllinn Jónsson. Allir birgjar, matreiðslumenn, listamenn og aðrir styrkja málefnið með vinnu sinni og vörum.
Átakið Mottumars, er sem fyrr tvíþætt, árveknisátak og fjáröflunarátak, og verður söfnunarféð notað til að efla forvarnir og fræðslu, rannsóknir og ráðgjöf. Einn af hverjum þremur karlmönnum fær krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni. Árlega greinast hér á landi að meðaltali um 720 karlar með krabbamein og árlega deyja að meðaltali um 280. Margt bendir til að koma megi í veg fyrir þriðjung krabbameina með fræðslu og forvörnum.