Tjaldurinn er mættur á kreik og hefur sést til hans víða við strendur hér norðan lands meðal annars við Héðinshöfða eins og meðfylgjandi myndband sem Gaukur Hjartarson tók á dögunum sýnir.
Tjaldurinn er gjarnan meðal fyrstu farfugla sem láta sjá sig á vorin og virðist engin undantekning vera á því í ár en margir þykjast finna vor í lofti þegar tjaldurinn er farinn að láta í sér heyra.
Á Íslandi eru tjaldar algengir varpfuglar á láglendi í öllum landshlutum, einkum í grennd við sjó en sums staðar leita þeir nokkuð inn til lands.
Á Wikipediu segir að tjöldum hafi fjölgað á Íslandi það sem af er þessari öld. Í byrjun aldarinnar voru þeir langalgengastir við Faxaflóa og Breiðafjörð en sjaldséðari með ströndum á landinu norðvestan- og norðanverðu. Nú halda þeir sig einnig mun meira inni í landi en áður. Þessi umskipti eru að einhverju leyti talin tengjast hlýnandi veðurfari framan af öldinni en aukin ræktun kann einnig að hafa haft sín áhrif þar sem tjaldar leita talsvert á tún til þess að afla sér fæðu.
Flestir íslenskir tjaldar eru farfuglar en slæðingur, 2.000 - 3.000 fuglar, halda til við suður- og vesturströndina á veturna en þeim fer þó fækkandi sem og fleiri vaðfuglum sem hafa haft vetursetu hér á landi.
Hér að neðan má sjá fimm tjalda sem komu sér fyrir á flóðsetri við Héðinshöfðann meðan sjávarstaðan var sem hæst: