Tilraunir með salt til hálkuvarna á Akureyri gefist vel

Kostnaður við snjómokstur og hálkuvarnir á Akureyri fyrstu 10 mánuði ársins er orðinn rétt rúmar 47 milljónir króna. Þar af er kostnaður við snjómokstur í byrjun ársins  ( janúar - apríl ) rétt tæplega 35 milljónir króna. Kostnaður vegna ársins 2007 var heldur lægri og árið 2006 var hann um 40 milljónir króna, samkvæmt upplýsingum Helga Más Pálssonar deildastjóra framkvæmdadeildar.  

"Rétt er þó að taka fram að hækkun á vísitölu milli áranna 2007 og 2008 er tæplega 20%." Á síðustu 2 mánuðum, í október og nóvember hafa verið notuð um 20 tonn af salti og það sem af er desember um 11 tonn. "Aðeins er saltað þegar nauðsyn krefur og fram að þessu þá hefur að jafnaði aðeins verið saltað þriðja hvern dag."
Á síðasta vetri, þ.e. seinni hluta ársins 2007 og fyrri hluta ársins 2008, þegar notað var saltblandað hálkuvarnarefni, voru notuð um 12 tonn af salti og um 400 tonn af malarefni til hálkuvarna. Í dag er aðeins notað malarefni á gangstéttar þar sem kornastærðin er að megninu til 4 - 11 mm eða um 80%. Þau svæði sem salti er dreift á í dag eru tæp 7 % af heildargatnakerfi bæjarins miðað við lengd þess, en þessi svæði eru á gatnamótum og öðrum erfiðum stöðum í bænum og aðallega á strætisvagnaleiðum.
"Þessar tilraunir með salt sem hálkuvörn á götur hafa almennt gefist vel og eru bílstjórar Strætisvagna Akureyrar almennt ánægðir með notkun þess. Ekki er hægt að merkja að saltið hafi fram að þessu nein neikvæð áhrif á undirvagna strætisvagnanna."
Helgi Már segir að ekki sé mikið um að haft sé samband við deildina vegna óánægju með saltnotkun, en það komi þó fyrir. "Oftar en ekki breytist afstaða viðkomandi þegar að málin hafa verið rædd og gerð hefur verið grein fyrir staðreyndum málsins, en oft byggist skoðun viðkomandi á röngum upplýsingum." Helgi Már segir að vegna aðstæðna í þjóðfélaginu hafi ekki verið gengið frá kaupum á nýjum svifryksmælum eins og til stóð, en samkvæmt nýjustu fréttum frá Umhverfisstofnun,  muni þeir væntanlega verða settir upp í febrúar á næsta ári.

Nýjast