Mér líst ágætlega á þessar tillögur og tel að þær geti komið málunum í réttan farveg og skapað grunn fyrir framtíðarskipulag háskólamála hér á landi. Sjálfstæður háskóli á Akureyri í góðu samstarfi við aðra háskóla innan lands sem utan er lykilatriðið fyrir okkur á landsbyggðinni, segir Stefán B. Sigurðsson rektor Háskólans á Akureyri um tillögur sem fram koma í nýrri skýrslu Vísinda- og tækniráðs. Í skýrslunni eru lagðar til tvær ólíkar leiðir til einföldunar á háskólakerfinu hér á landi. Í þeirri fyrri er lagt til að háskólum landsins verði fækkað úr sjö í fjóra og að eftir standi tveir opinberir háskólar og tveir sjálfstæðir. Annar opinberi skólinn yrði Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Hólum, sameinaðir í einni stofnun.
Þetta er hugmynd sem hefur verið lengi í umræðunni. Hún kom fram í skjölum rýnihóps á vegum menntamálaráðuneytisins árið 2010 en þar er rætt um Háskóla norðursins sem samanstandi af Háskólanum á Akureyri og Háskólanum á Hólum. Ég tel að þessir tveir háskólar geti aukið mjög samstarf sitt og fundið leið þar sem starfsemi þeirra fléttist þétt saman með hagsmuni beggja stofnana í huga, segir Stefán.
Hin tillaga Vísinda- og tækniráðs, er sú að að háskólar yrðu sjálfseignarstofnar. Stefán telur þá hugmynd mun langsóttari og erfiðari í framkvæmd. Ég held að það væri lítið áunnið að breyta þessum 7 skólum í sjálfseignarstofnanir nema því væri fylgt enn frekar eftir með samstarfi milli stofnana.
Fyrri hugmyndin er mun betri að mati háskólarektors og sérstaklega þar sem samstarf sem opinberu háskólarnir hafa byggt upp undanfarin tvö ár er góður grunnur.
Við eigum að halda áfram því samstarfi og á 2-3 árum ættum við að geta náð fram til góðrar lausnar í anda fyrri tillögunnar. Aðal vandamálið er þó að háskólakerfið okkar er verulega undirfjármagnað. Við rekum eitt ódýrasta háskólakerfi í Evrópu og erlendir gestir sem hingað koma og kynna sér málin skilja ekki hvernig hægt er að halda uppi þeim gæðum sem við höfum fyrir þetta fjármagn. Skýringin liggur í hugsjónastarfi starfsmanna háskólanna en það gengur ekki til lengdar, segir Stefán.