Meirihluti skólanefndar samþykkti tillögur stýrihóps um stjórnkerfi skóla Akureyrarbæjar á fundi sínum í gær og vísaði þeim til bæjarstjórnar. Tillögurnar fela meðal annars í sér að unnið verði að sameiningu leikskóla þannig að á hverjum þeirra verði 90-150 börn, hvatt verði til aukinnar teymisvinnu skólastjórnenda og kennara í öllum skólum bæjarins og dreifstýring verði aukin í leikskólum til samræmis við það sem er í grunnskólum. Markmið tillagnanna er að efla faglegt starf innan skóla Akureyrarbæjar.
Helgi Vilberg Hermannsson A-lista og Logi Már Einarsson S-lista sátu hjá við afgreiðslu málsins í skólanefnd og Logi Már lagði fram eftirfarandi bókun. Lögð hefur verið áhersla á sjálfstæði grunnskóla Akureyrar til þróunar kennsluhátta samhliða auknu frelsi foreldra til að velja börnum sínum skóla. Samfylkingin á Akureyri leggur ríka áherslu á að skólar bæjarins starfi samkvæmt aðalnámskrá og stjórnun þeirra sé fagleg, hagkvæm og árangursrík. Tekið er undir ýmislegt sem fram kemur í skýrslu stýrihóps um stjórnkerfi skóla Akureyrarbæjar. Þó þarf að tryggja að ekki sé þrengt um of að sjálfstæði skólanna til að þróa kennsluhætti og skólastarf, þannig að fölbreytni verði sem mest.
Tillögurnar eru aðgengilegar á heimasíðu skóladeildar http://skoladeild.akureyri.is