Tillaga um að ráðist verði í lagningu Svínavatnsleiðar

Tillaga til þingsályktunar um styttingu þjóðvegar milli höfuðborgarsvæðisins og Norðausturlands með lagningu Svínavatnsleiðar, hefur verið lögð fram á Alþingi.  Samkvæmt tillögunni ályktar Alþingi að fela innanríkisráðherra að láta sem fyrst hefja undirbúning að gerð vegar um svonefnda Svínavatnsleið (Húnavallaleið) í Austur-Húnavatnssýslu og við það miðað að hann verði fjármagnaður með veggjöldum.  

Fram kemur í greinargerð að með tillögu þessari er lagt til að hafinn verði undirbúningur að gerð þess vegar sem styttir aðalaleið milli landshluta hvað mest hér á landi og er jafnframt ein arðsamasta samgönguframkvæmd sem hægt er að ráðast í. Ekki er vitað um styttingu nokkurs vegar á landinu sem er eins þjóðhagslega hagkvæm. Leiðin mun liggja af Hringveginum í landi Brekkukots, norðan Svínavatns og tengjast Hringveginum við Fagranes í Langadal. Leiðin mun vera tæplega 17 km löng og stytta Hringveginn um allt að 14 km.

Einnig kemur fram í greinargerðinni að sveitarstjórnarmenn í Austur-Húnavatnssýslu hafi ávallt lagst gegn lagningu Svínavatnsleiðar og eðlilega óttist ýmsir íbúar á Blönduósi að missa spón úr aski sínum ef dregur að ráði úr umferð þar. Þótt ríkissjóður hafi ekki yfir fjármunum að ráða til að kosta gerð þessa vegar má telja líklegt að fjármagna mætti gerð hans að mestu eða öllu leyti með lánsfé sem endurgreitt yrði með gjaldtöku af þeim sem nýttu sér veginn. Kostnaður við vegalagninguna er áætlaður röskir tveir milljarðar króna - og miðað við hóflegt veggjald, þó aldrei lægra en 600 krónur á hverja bifreið, án afsláttar, má búast við að framkvæmdin geti borgað sig upp á 20 árum.

Lækkun flutningskostnaðar er lífsspursmál fyrir fjöldamörg framleiðslufyrirtæki úti á landi, svo og lífskjör almennings á svæðinu. Hagsmunir flutningsaðila - og þar með framleiðenda og neytenda - eru þó hvað ríkastir á helstu þjóðleið landsins, milli Reykjavíkur og Akureyrar, en áætla má að um 500 tonn af vörum fari þar á milli á hverjum virkum degi, eða vel ríflega 100 þúsund tonn á ári, sem er langtum meira en þekkist á öðrum helstu flutningsleiðum landsins. Hvergi á landinu utan höfuðborgarsvæðisins eru jafn mörg og stór framleiðslufyrirtæki staðsett og í Eyjafirði: Flutningskostnaður þeirra á aðalmarkaðinn á suðvesturhorni landsins er þeim mjög íþyngjandi og léttist ekki á næstu misserum nema með styttingu leiða eða breyttri gjaldheimtu. Ekki er óalgengt að meðalstórt framleiðslufyrirtæki á svæðinu verji um 200 milljónum króna á ári í beinan flutningskostnað, sem í reynd er herkostnaðurinn fyrir að framleiða vöru fjarri suðvesturhorni landsins.

Þessi kostnaður skekkir verulega samkeppnisstöðu framleiðslufyrirtækja úti á landi og ógnar rekstrargrundvelli þeirra. Gerð þessrar nýju þjóðleiðar yrði kærkomið verkefni fyrir verktaka nú þegar lítið er um nýframkvæmdir og búast má við afar hagstæðum tilboðum, en um tiltölulega mannaflsfreka framkvæmd væri að ræða. Landsbyggðarfólk segir réttilega að það sé ekki einkamál Reykvíkinga hvar flugvöllur fyrir innanlandsflugið sé. Sömu rök gilda um Svínavatnsleið. Það er ekkert einkamál fólks úti á landi að hringvegurinn sé 14 kílómetrum lengri en hann þarf að vera, segir m.a. í greinargerð með tillögunni.

Fyrsti flutningsmaður er Sigmundur Ernir Rúnarsson en samflutningsmenn eru; Tryggvi Þór Herbertsson, Róbert Marshall, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Þráinn Bertelsson, Jón Gunnarsson, Árni Johnsen og Þór Saari.

Nýjast