Í innsendum athugasemdum eru m.a. óskir frá íbúum svæðisins um fækkun lóða og minnkun byggingamagns. Tillaga að
endurskoðuðu deiliskipulagi við Spítalaveg, Steinatröð og Tónatröð sem er unnin af Hermanni G. Gunnlaugssyni frá Storð ehf. í samvinnu
við skipulagsdeild var auglýst frá 14. maí til 25. júní 2008. Eftirfarandi athugasemdir bárust:
1) Helgi Ármann Alfreðsson og Jóhanna Indíana Steinmarsdóttir, dags. 23. júní 2008.
Vilja að lóð nr. 23 við Spítalaveg verði felld niður vegna húsagerðar, stærðar og staðsetningar. Mótmæla nýrri byggð
við Tónatröð þar sem hún uppfyllir ekki markmið aðalskipulags.
2) Margrét Guðmundsdóttir, Þórarinn Hjartarson, Helgi Friðjónsson, Hrafnhildur Gunnarsdóttir dags 24. júní 2008.
Vilja að hús nr. 1 og 3 við Tónatröð verði felld niður þar sem þau ganga á lóðir sem eigendur húsa nr. 17 og 19 hafa haft
til umráða. Vilja að byggingarreitur Spítalavegar 15 verði ekki stækkaður til suðurs þar sem það brýtur upp þá heildarmynd
sem húsin nr. 15, 17 og 19 skapa. Lagt er til að einstefnuakstur yrði niður Spítalaveginn en ekki upp vegna ófærðar á veturna og
snúningsaðstaða gerð á mótum einstefnu og tvístefnu. Gatan yrði gerð að vistgötu. Vilja að nýbyggingar við
Tónatröð falli niður en núverandi götumynd þétt með mannvirkjum sem falli vel að þeim húsum sem fyrir eru hvað stærð og
gerð varðar. Vilja ekki aukaíbúðir í húsum þar sem það kallar á aukna umferð og vilja eingöngu þakhalla sem sýndur
er á skýringarmynd E2-a í greinargerð. Þau leggja einnig til að svæðið milli FSA og Spítalavegar verði útivistarsvæði sem
tengir saman Lystigarðinn og Lækjargilið. Vilja að húsakönnun verði lögð fram sem fyrst þar sem hún er nauðsynleg forsenda fyrir
endurskoðun deiliskipulagsins.
3) Gísli Sigurgeirsson og Guðlaug Ringsted, dags 25. júní 2008.
Við gerð skipulagstillögunnar er ekki tekið tillit til sögu svæðisins og húsakönnun liggur ekki fyrir. Hús við Tónatröð eru of
stór og of þétt og þrengja að lóðum við Spítalaveg og eru of nærri FSA. Vilja að hús sitt við Tónatröð 11
verði merkt eins og hús við Spítalaveg sem fá að standa og að lóðamörk verði nær óbreytt frá því sem
nú er. Vilja einstefnu niður götuna. Koma með tillögur um að svæðið verð bætt m.a. með göngustígum og að flytja
þangað gömul hús.
4) Ólafur Tr. Kjartansson og Þorbjörg Ingvadóttir.
Telja að svæðið beri ekki þann fjölda húsa sem settur er fram í skipulagstillögunni. Vilja að Tónatröð verði lögð af
og svæðið skipulagt sem grænt svæði. Spítalaveg 23 ætti einnig að fella niður vegna stærðar. Reisa mætti tvö hús milli
Spítalavegar 15 og Litla Klepps. Færa mætti gömul hús á svæðið og auka þannig byggingarsögulegt gildi Innbæjarins. Þau eru
mótfallin viðbyggingu við Spítalaveg 15 vegna heildarmyndar götunnar. Sjá ekki ástæðu til að rífa hús á svæðinu
til að byggja á sama grunni. Vilja einstefnu niður Spítalaveg vegna ófærðar á veturna. Vilja að settar verði fram strangari reglur um
húsagerð og útlit. Byggingar við Tónatröð yrðu of þéttar og of háar þannig að eldri hús á svæðinu myndu
ekki njóta sín. Vilja helmings fækkun nýrra húsa á skipulagi.
5) Kjartan Ólafsson.
Telur að slysahætta aukist ef Spítalavegurinn yrði einstefna. Gagnrýnir greinargerðina, kafla um sögu, landshætti og gróðurfar og
umhverfisskýrslu.
6) Kolbrún Sigurgeirsdóttir, dags. 24. júní 2008.
Leggst á móti byggingu húsa við Tónatröð þar sem það þrengi að FSA. Vill sjá það sem grænt svæði.
Húsin eru of mörg og of þétt og verða því ekki byggð í samræmi við núverandi hús. Húsin eru of stór og ekki
löguð að umhverfinu. Svæðið ætti að varðveita vegna sögulegs gildis. Gatan er teiknuð með reglustiku og samræmist því engan
veginn skipulagi sem fyrir er á svæðinu.
7) Jón Georg Aðalsteinsson og Hilma Sveinsdóttir dags 25. júní 2008.
Þau eru ósátt við lagningu Tónatraðar og einnig hversu mörg húsin eru og þétt. Byggðin þrengir um of að FSA,
ásýnd og sögulegt gildi breytist, ekki er pláss fyrir leiksvæði og hús nr. 23 við Spítalaveg er óskynsamlegt. Þau leggja fram
nokkrar spurningar í framhaldi af athugasemdunum sem snerta húsakönnun, framtíðar skipulag Lystigarðsins og FSA, umferð og leiksvæði. Þau
styðja tillögur Gísla Sigurgeirssonar og Guðlaugar Ringsted.
8) Hjörleifur Stefánsson f.h. eiganda Spítalavegar 8, dags. 12. júní 2008.
Óskar eftir að lóð nr. 8 við Spítalaveg verði stækkuð í samræmi við uppdrátt sem barst með erindinu. Beðið er um
breytingu á lóðamörkum og breytingar á gangstíg og að markaðir verði byggingarreitir fyrir bílskýli og garðhús á
lóðinni.
Athugasemdir frá Hverfisnefnd Brekku- og Innbæjar bárust 28. júní 2008, eða eftir að fresti lauk. Vegna menningarsögulegs gildis svæðisins
á ekki að blanda saman húsum sem eru ólík þeirri gömlu bæjarmynd sem nú er. Þétting byggðar ætti að vera með
hliðsjón af því skipulagi og í sama byggingarstíl og fyrir er. Hugmyndir frá íbúum er að svæðið geti
þjónað bæjarbúum með t.d. göngu- og hjólreiðarstígum og tengja með því saman hverfi.
Áskorun til skipulagsnefndar og bæjarstjórnar Akureyrar dags. 25. júní 2008 frá íbúum og húseigendum á svæðinu.
Ekki er tekið tillit til sögu og menningarverðmæta og húsakönnun ekki lögð til grundvallar. Leggjast gegn lagningu Tónatraðar en vilja sjá
útivistarsvæði í tengslum við Lystigarðinn og Búðargil. Leggjast gegn byggingu húss nr. 23 við Spítalaveg. Einstefna niður götuna
væri æskilegra. Á opin svæði sunnan Stekkjar og norðan Klepps væri hægt að reisa ný hús í gömlum stíl eða flytja
þangað gömul hús. Skorað er á bæjarstjórn að draga skipulagstillöguna til baka og vinna nýtt skipulag í samvinnu við
íbúana.
Umsögn Minjaverndar dags. 14. maí 2008. Gamlir friðaðir garðar eru í Búðargili. Syðsti hluti Tónatraðar, hringplan og hugsanlega
byggingarreitur ná yfir garðinn. Best væri að breyta skipulaginu þannig að garðurinn varðveitist. Annars þarf að rannsaka minjarnar á
kostnað framkvæmdaraðila. Svæðið fyrir minjarnar þarf að afmarka og skipuleggja.