Tillaga að deiliskipulagi Drottningarbrautarreits samþykkt í bæjarstjórn

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi sínum í gær, tillögu meirihluta skipulagsnefndar að deiliskipulagi Miðbæjar suðurhluta - Drottningarbrautarreits, auk breytingaruppdráttar af deiliskipulagi Miðbæjar. Tillagan var samþykkt með níu atkvæðum, gegn atkvæði Guðmundar Baldvins Guðmundssonar B-lista. Njáll Trausti Friðbertsson D-lista sat hjá við afgreiðslu. Eins og fram hefur komið bárust níu skriflegar athugasemdir við tillöguna, auk þess sem vel á annað þúsund manns skrifuðu sig á undirskriftalista gegn þessum breytingum. Svæðið sem deiliskipulagið nær til afmarkast af Drottningarbraut í austri, Kaupvangsstræti í norðri, lóð Akureyrarkirkju og Eyrarlandsvegi í vestri og lóðarmörkum Hafnarstrætis 65 og Austurbrú í suðri. Í tillögunni er gert ráð fyrir blandaðri byggð íbúða, verslunar, þjónustu og stofnana. Nýjar íbúðir verða meðfram Drottningarbraut og við Hafnarstræti. Einnig er gert ráð fyrir hótelbyggingu syðst á reitnum og nýrri aðkomugötu, húsagötu, samsíða Drottningarbraut.

Nýjast