Tilhlökkun að spila aftur hér heima
Handboltakappinn Ragnar Snær Njálsson mun að öllum líkindum spila með Akureyri eftir áramót í N1-deild karla. Eftir tvö ár í atvinnumennsku, þar sem Ragnar lék í hálft ár með A.O. Dimou Thermaikou í grísku úrvalsdeildinni og eitt og hálft tímabil með HSC Bad Neustadt í þýsku 3. deildinni, ákvað Ragnar að snúa heim aftur en meiðsli hafa sett strik í veruna hjá honum úti.
Frá því ég var 16 ára hefur vinstra hnéið verið að stríða mér og svo lenti ég í að fá brjóstklos í janúar. Ég ákvað því bara að koma heim og reyna að jafna mig alveg á meiðslunum og spila handbolta hér heima, segir Ragnar, sem reiknar með að vera til í slaginn strax í janúar. Hann segir ekkert annað hafa komið til greina en að spila með liði Akureyrar hér heima enda norðanmaður í húð og hár.
Ég á eftir að ræða betur við Akureyrarliðið en ég reikna með að þetta gangi allt eftir og ég hlakka bara rosalega til að prófa spila aftur hér á landi. Ég held að það sé ofsögum sagt hvað íslenska deildin sé í mikilli lægð og hér sé lélegur handbolti. Mér líst vel á þessa deild og ég fylgdist vel með er ég var erlendis. Hér er spilaður flottur handbolti og ég vil hjálpa Akureyri að ná einhverju öðru en silfri í vetur.
Ragnar lék með KA og HK hér heima áður en hann fór í atvinnumennskuna. Hann segist vera mikill KA-maður en er hins vegar ánægður með sameininguna í handboltanum á Akureyri. Þeir sem mig þekkja vita að ég er með gult og blátt blóð og einn af allra hörðustu KA-mönnunum. Ég er samt mjög ánægður með hvernig þessi sameining hefur gengið upp og ég er alveg laus við alla fordóma í sambandi við það. Þetta er svakalega flott lið og það er mikil tilhlökkun hjá mér að spreyta mig með þeim."
Lengra viðtal við Ragnar Snæ má finna á íþróttasíðum Vikudags sem kom út í dag.