Tvö tilboð bárust í framkvæmdir við endurbætur á Listasafninu á Akureyri og voru þau bæði yfir kostnaðaráætlun, sem hljóðar upp á rúmar 442 milljónir króna. Tilboðin voru annars vegar frá BB byggingum uppá tæpar 590 milljónir kr. og hins vegar ÁK smíði uppá tæpar 552 milljónir króna. Umhverfis- og mannvirkjaráð hafnar tilboðunum sem bárust í verkið en meirihluti ráðsins samþykkir jafnframt að gengið verði til samningaviðræðna við lægstbjóðanda, ÁK smíði ehf.
Eins og Vikudagur hefur fjallað um eru fyrirhugaðar framkvæmdir í húsakynnum Listasafnsins og m.a. áætlað að Ketilhúsið verði hluti af safninu.
Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Akureyrar, lagði fram bókun þar sem hann samþykkir að hafna öllum tilboðum, en leggst gegn tillögu um að gengið verði til samninga við lægstbjóðanda, „enda er enn verið að bæta í kostnað við verkið svo nemur tugum milljóna. Þá set ég spurningamerki við þær tillögur sem lagðar eru fram til að lækka byggingarkostnaðinn og tel að þær muni ekki ganga að fullu eftir þegar á reynir. Byggingarkostnaðurinn stefnir því í að verða mun hærri þegar upp verður staðið,“ segir í bókun Gunnars.
Í fundargerð umhverfis-og mannvirkjaráðs um endurbætur í Listagilinu segir að húsnæðið uppfylli ekki kröfur um eldvarnir, heilbrigðismál og aðgengismál og þarf m.a. að endurnýja allar vatns- og raflagnir og loftræstikerfi. „Ljóst er að ráðast þarf í gagngerar endurbætur á húsnæðinu til að það uppfylli kröfur sem gerðar eru til húsnæðis listasafns. Einnig þarf að horfa til þess að þær framkvæmdir sem eru á áætlun eru að stórum hluta uppsafnað viðhald á húsnæðinu sem nauðsynlegt er að ráðast í til að það verði ekki fyrir skemmdum og að lokum jafnvel ónothæft.
Tengigangur á milli Mjólkursamlags og Ketilhúss stuðlar að hagræðingu fyrir rekstur Listasafnsins og eykur möguleika í starfsemi þess til muna. Ætlunin er að í Listasafninu og umhverfi þess verði til manngerður áningarstaður fyrir ferðamenn,“ segir í fundargerð.