Hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og annað starfsfólk lyflækningadeildar lýsa yfir verulegum áhyggjum vegna lokunar á sjö daga plássi á Kristnesspítala um áramótin. Nú þegar hefur um helmingi plássa verið lokað og finnum við strax fyrir auknu álagi vegna þessa.
Kristnes er eina deildin sem sinnir sérhæfðri endurhæfingu fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Starfsfólk Kristness mun halda áfram að sinna endurhæfingu þeirra sem geta þegið hana fimm daga vikunnar og farið heim um helgar. Við þessa breytingu myndast sjúklingahópur sem þarfnast sérhæfðrar endurhæfingar en kemst ekki heim um helgar vegna mikillar hjúkrunarþyngdar og endurhæfingarþarfar. Ef af þessu verður munu þessir sjúklingar fá endurhæfingu inni á bráðalegudeildum Sjúkrahússins á Akureyri. Hætt er við því að þetta rýri gæði endurhæfingar þeirra sem eru í brýnni þörf fyrir sérhæfða endurhæfingu og að hún verði ómarkvissari. Það er okkar mat að fullnægjandi endurhæfing geti ekki átt sér stað inni á bráðalegudeild.
Það er með öllu ljóst að þetta mun þyngja verulega róðurinn á lyflækningadeildinni, sem nú þegar er verulega þungur vegna fráflæðisvanda og álags. Í lengri tíma hefur starfsfólk deildarinnar viðrað áhyggjur sínar hvað þetta varðar. Unnið hefur verið að aukningu á mannafla og hagræðingu í starfi með tilliti til þessa og því skýtur þessi ákvörðun skökku við. Ljóst er að þetta mun auka enn frekar á fráflæðisvanda deildarinnar, hætt er við því að þetta skerði lífsgæði þeirra sem fá ekki fullnægjandi endurhæfingu sem og að öryggi bráðveikra sjúklinga gæti verið ógnað ef farið verður í að útskrifa of snemma vegna plássleysis.
Við finnum nú þegar fyrir mikilli óánægju sjúklinga og aðstandenda. Nú eru inniliggjandi sjúklingar á vegum lyflækninga sem munu ekki komast í sérhæft endurhæfingaúrræði á Kristnesi og hafa jafnvel fengið neitun á sérhæfðu endurhæfingarúrræði í Reykjavík. Þetta eru sjúklingar sem eru of þungir hjúkrunarsjúklingar fyrir fimm daga pláss en í brýnni þörf fyrir endurhæfingu. Endurhæfing sem starfsfólk lyflækningadeildarinnar hefur oft á tíðum ekki tök á að sinna á fullnægjandi hátt, vegna anna á deildinni. Við höfum því áhyggjur af því hvaða áhrif lokunin mun hafa á þennan sjúklingahóp sem og starfsfólk deildarinnar. Það hefur mikil áhrif á líðan starfsfólks og eykur streitu þegar við höfum ekki tíma til að sinna starfinu nógu vel og endurhæfing mætir því miður afgangi þegar þarf að forgangsraða verkefnum á bráðalegudeildum en þetta þekkjum við af eigin reynslu.
Lyflækningadeildin á Sjúkrahúsinu á Akureyri stendur höllum fæti, svo vægt sé til orða tekið. Samtöl við aðrar stofnanir hefðu átt að eiga sér stað áður en tilkynnt var um lokun deildarinnar á Kristnesi en það er vitað mál að nú þarf að vinna hörðum höndum við að koma þessum hópi sjúklinga fyrir í viðeigandi plássum. Það er einlæg ósk okkar og faglegt mat að afstýra þurfi þessari ákvörðun, leggja þarf allan þunga í að leysa þau vandamál sem lokunin mun valda áðuren alvarleg atvik verða vegna álags á deildinni.
Hagsmunir almennings eru í húfi.