Til að lýðræðinu sé fullnægt er ekki nægilegt að hafa lýðræðislega stjórnarskrá og stjórnarhætti. Fyrsta grein íslensku stjórnarskrárinnar tekur til þess að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn. Þýðir það, í stuttu máli, að á Íslandi er æðsti þjóðhöfðingi landsins kjörinn af almenningi. Hér ríkir því lýðveldi. Hvað með lýðræði?
Mikilsvirtur kennari minn í BA námi mínu í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, Svanur Kristjánsson, sagði reglulega við okkur nemendurna að mikilvægt væri að okkur þætti vænt um lýðræðið. Hann talaði í því samhengi um hinn lýðræðislega einstakling, sem bæði þætti vænt um lýðræðið og stæði vörð um það. Í því samhengi væri nauðsynlegt að ala upp í fólki virðingu fyrir lýðræðinu og að það væri fært um að taka þátt í lýðræðisþjóðfélagi. Lýðræði hvílir því ekki aðeins á stjórnarskrá, heldur verður það að búa í sál hvers og eins.
Þessi orð hafa setið í mér og þykir mér sem þau eigi ágætlega við á þeim tímamótum sem við, íslenska þjóðin, stöndum í dag. Komandi Þjóðfundur sem skila mun tillögum um breytta stjórnarskrá til Stjórnlagaþings, segir ekki alla söguna. Lýðræðið verður nefnilega að vera innra með okkur. Við verðum að hafa trú á því og okkur verður að þykja vænt um það. Með þátttöku í Þjóðfundinum og málefnalegum umræðum mun jákvætt viðhorf almennings til lýðræðis í landinu, vonandi eflast. Lýðræðið verður ekki öflugt, ráðandi stjórnarform nema með virkri þátttöku þjóðarinnar. Því langar mig að hvetja okkur öll til að taka þátt í umræðum um komandi Þjóðfund og Stjórnlagaþing eins og kostur er. Án okkar áhuga mun lítið breytast til frambúðar.
Það að 500 einstaklingar hafi ákveðið að gefa kost á sér til Stjórnlagaþingsins er að mínu mati merki um nauðsyn þess að breytingar verði á íslensku samfélagi. Ég býð mig fram sem fulltrúa yngri kynslóðanna, framtíð mín er í húfi.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.