„Þurfum að taka ákvörðun um það hvort við viljum spila með“

Húsavík. Mynd/Húsavíkurstofa
Húsavík. Mynd/Húsavíkurstofa
  • Atvinnuuppbygging á grunni grænna iðngarða

  • Líklegar sviðsmyndir kynntar


 

Á þriðjudag fer fram íbúafundur á Húsavík þar sem kynntar verða mögulegar sviðsmyndir atvinnuuppbyggingar á Bakka. Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings segir að aldrei hafi verið jafn margir umræðufletir á mismunandi uppbyggingu mögulegra atvinnutækifæra.

Kristján

„Mestu skiptir áhersla bæði okkar og ríkisins til að finna leiðir til að ýta undir fjölbreytta uppbyggingu orkusækins iðnaðar á þessum grænu nótum,“ segir Kristján.

Fyrr á þessu ári ritaði Norðurþing undir samstarfssamning við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Íslandsstofu og Landsvirkjun um að kanna uppbyggingu grænna iðngarða á Bakka. Sveitarfélagið hefur unnið að undirbúningi þeirrar uppbyggingar ásamt Landsvirkjun í lengri tíma. Afrakstur þeirrar vinnu verður kynntur á fundinum.

Grænn iðngarður á Bakka

„Við ætlum að kanna álit íbúa á þá sýn sem við erum að marka með þessu verkefni. Ég held að það sé áhugi fyrir því að sækja fram á Bakka og ég tel að það séu klárlega tækifæri til þess á grunni þess sem kallað hefur verið grænn iðngarður. Það verður fróðlegt að sjá hvað íbúum finnst um þennan fund. Þarna munum við kynna líklegustu sviðsmyndirnar miðað við núverandi stöðu,“ útskýrir Kristján.

Norðurþing hefur þegar skrifað undir viljayfirlýsingu Carbon Iceland ehf. um að kanna fýsileika þess að byggja upp lofthreinsiver á bakka sem gæti skapað 300-500 stöðugildi. Kristján segir að enn fleiri aðilar hafi leitað til sveitarfélagsins með hugmyndir um frekari uppbyggingu.

 Fjórar megin sviðsmyndir

„Það hafa haft samband við okkur aðilar sem eru að huga að uppbyggingu gagnavera, það hafa einstaklingar sýnt áhuga á landeldi á bleikfiski, það hafa sett sig í samband við okkur einstaklingar sem hafa verið að skoða rafeldsneytisframleiðslu, þ.e.a.s. vetnisframleiðslu og hugsanlega ammoníak til útflutnings. Þetta eru grunnurinn af því sem Landsvirkjun hefur verið að horfa á. Það eru þessar fjórar sviðsmyndir ; Rafeldsneyti, rafhlöðuframleiðsla, gagnaver og matvælaframleiðsla,“ útskýrir Kristján.

Kristján segist búast við því að hugmyndir sem kynntar verði á fundinum muni hreyfa við fólki. „Hvernig ætlum við að koma því sem við erum ekki að nota í dag í einhverskonar not? Ég hlakka mjög til fundarins og vona að það verði góð mæting.“

Fjölbreyttara val

Sveitarstjórinn segist líta björtum augum á framtíðina hér á svæðinu. „Það eru bara örfáir staðir á Íslandi sem hafa þessar auðlyndir og innviði sem snúa að orkunni og við þurfum að taka ákvörðun um það hvort við viljum spila með. Ætlum við að nýta okkur þetta og hvers konar sviðsmynd viljum við sjá að verði að raunveruleika. Við höfum miklu meira val en áður um það hvers konar atvinnustarfsemi byggist upp í sveitarfélaginu.“


Athugasemdir

Nýjast