Þungur róður hjá Kirkjugörðum Akureyrar á niðurskurðartímum

„Róðurinn er þungur, það er óhætt að segja það," segir Smári Sigurðsson framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar en eins og staðan er nú á niðurskurðartímum sér hann ekki fram á að annað en að mæta minnkandi fjármagni til rekstrarins með öðrum hætti en að draga úr  umhirðu kirkjugarðsins á komandi sumri.   

Annar möguleiki væri að loka líkhúsinu sem er þungur baggi á rekstrinum og Kirkjugörðum Akureyrar ber ekki skylda samkvæmt lögum að reka hús af því tagi. „Ég á raunar ekki von á að til þess komi," segir hann. Á liðnu ári var alls 101 greftrun í Kirkjugarði Akureyrar, mun færri en árið á undan þegar þær voru um 130 talsins.  Það ár voru útfarir óvenju margar að sögn Smára, en nokkrar sveiflur eru ætíð í þessu eins og öðru.  Bálfarir eru fátíðar á Akureyri sem annars staðar á landsbyggðinni, um 1% að meðaltali á ári, en á höfuðborgarsvæðinu eru þær um 30% allra útfara. „Ég á ekki von á að mikil breyting verði á hér fyrr en garðurinn fyllist," segir Smári, sem verður eftir um það bil 15 ár. Sú hafi verið raunin á höfuðborgarsvæðinu, þegar Fossvogskirkjugarður fylltist og nýr garður, Gufuneskirkjugarður var tekin í notkun fjölgaði bálförum til muna enda var þá enn nægt pláss fyrir duftker í fyrrnefnda garðinum.

Smári bendir á að  Kirkjugarðar Akureyrar reki eina líkhúsið á stóru svæði og sinni m.a. öllu Eyjafjarðarsvæðinu og taki einnig á móti öllum þeim sem deyja á Sjúkrahúsinu á Akureyri.  Þannig hafi verið allt að 180 athafnir í húsinu á liðnu ári þó greftranir hafi einungis verið um 100 talsins.

„Við berum allan kostnað við rekstur líkhúss og kapellu og svo undarlegt sem það nú er, ber engum að reka líkhús lögum samkvæmt og fáum við ekki til þess eina einustu krónu á fjárlögum. Okkur er því nauðugur sá kostur að reka líkhúsið og kapelluna með því fé sem við fáum til að annast umhirðu kirkjugarðsins.  Sem betur fer eru ekki mörg aðkallandi fjárfrek verkefni framundan hjá okkur þar sem við höfðum unnið fram í tímann fyrir nokkrum árum þegar við höfðum meira fé milli handanna.  Nú þurfum við eins og aðrir að sæta niðurskurði, sitjum uppi með mikinn kostnað við rekstur á líkhúsinu og kapellunni, þannig kostirnir í stöðunni eru aðeins þeir að draga úr umhirðu kirkjugarðsins í sumar eða loka starfseminni á Höfðanum.  Það held ég að myndi mælast mjög illa fyrir þannig að við forðumst það auðvitað í  lengstu lög," segir Smári.  Hann bætti við að þó minna yrði um slátt og aðra umhirðu í garðinum myndi starfsfólk eftir sem áður gera sitt besta til að garðurinn liti sómasamlega út.

Nýjast