Þróa fagháskólanám í öldrunarhjúkrun

Háskólinn á Akureyri. Mynd: Daníel Starrason/Unak.is
Háskólinn á Akureyri. Mynd: Daníel Starrason/Unak.is

Háskólinn á Akureyri og Sjúkraliðafélag Íslands þróa fagháskólanám í öldrunarhjúkrun fyrir starfandi sjúkraliða í samstarfi við heilbrigðisstofnanir.

Í tilkynningu frá Háskólanum á Akureyri (HA) kemur fram að eitt af aðalmarkmiðum verkefnisins sé að opna leiðir fyrir sjúkraliða í háskólanám og auka þannig enn frekar hæfni sjúkraliða til að sinna öldruðu einstaklingum og vinna að heilsueflingu og forvörnum meðal aldraðra. Þá er stefnan sett á að auka sjálfstæði og ábyrgð sjúkraliða innan og utan stofnana og að svara þörfum fyrir aukna sérþekkingu.

Lengri lífaldur einstaklinga og auknir meðferðarmöguleikar margra langvinnra sjúkdóma og fatlana hafa leitt til breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Afleiðingar þessa eru miklar breytingar á heilbrigðiskerfinu hér á landi sem gera auknar kröfur um menntun, sérhæfingu, samskiptahæfni, sveigjanleika, jafnrétti og nýsköpun.

Sjúkraliðar eru heilbrigðisstarfsmenn með lögverndað starfsheiti á Íslandi. Um 3.000 félagsmenn eru í Sjúkraliðafélagi Íslands, þar af um 2.000 starfandi.

Miðað er við að námið verði kennt með vinnu á tveimur árum og skiptist í almenn námsskeið á heilbrigðissviði og sérhæfðari námskeið á öldrunarsviði. Kennsla og verkefnavinnsla taki mið af miklu hópstarfi, umræðum og raunhæfri verkefnavinnslu út frá reynslu og tengt störfum nemenda í hinum ýmsu stofnunum innan heilbrigðiskerfisins.

Verði námið að veruleika er vonast til að hægt verði að bjóða upp á það sem diplómanám á BS stigi (60 ECTS).

Verkefnið hefur hlotið vilyrði um styrk úr fagháskólanámssjóði ASÍ, BSRB og SA ásamt því að sótt hefur verið um framlag frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til þróunar námsins og stefnt er að því að námið hefjist haustið 2018.

Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri segir á heimasíðu HA að þróun námsins í nánu samstarfi við Sjúkraliðafélagið vera svar við þörfum samfélagsins: „Háskólinn á Akureyri er ungur og framsækinn háskóli og við vílum það ekki fyrir okkur að fara af stað með nám sem samfélagið kallar á. Það gerðum við líka þegar krafa kom upp um nám í tölvunarfræði við HA. Mikil vöntun er á fagaðilum í öldrunarhjúkrun og með þróun þessa náms gerum við starfandi sjúkraliðum fært um að sinna þessum störfum enn betur.“ segir Eyjólfur.

Haustið 2016 kom út skýrsla um fagháskólanám frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þar kom fram að auka þyrfti samstarf háskóla, framhaldsskóla og atvinnulífs um fagháskólanám m.a. með því að skapa vettvang fyrir skipulag og stýringu fagháskólanáms með aðkomu atvinnulífsins. Þar kom einnig fram að markvisst þyrfti að vinna að því að háskólar bjóði upp á raunfærnimat og nám sem hentar þörfum nemenda með „óhefðbundinn“ bakgrunn. Þannig verði til aukið námsframboð fyrir einstaklinga á vinnumarkaði til að þróa sig í starfi og afla sér menntunar við hæfi. Verkefnishópurinn var skipaður aðilum úr Landssambandi íslenskra stúdenta, samstarfsnefnd háskólastigsins, skólameistarafélagi Íslands, sambandi íslenskra framhaldsskólakennara, samtaka atvinnulífisins, bandalagi háskólamanna, BSRB, alþýðusambandi Íslands auk starfsmanna mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Niðurstaða verkefnishóps um fagháskólanám (pdf.)

 

Nýjast