Þrír nýir stjórnarmenn í stjórn Saga Fjárfestingarbanka
Þrír nýir stjórnarmenn, tóku sæti í stjórn Saga Fjárfestingarbanka í kjölfar framhaldsaðalfundar bankans sem fór
fram nýlega. Þeir eru Dr. Ágúst Egilsson, Áslaug Gunnlaugsdóttir, héraðsdómslögmaður, og Brynhildur Kristín
Ólafsdóttir. Tveir stjórnarmenn sitja áfram, þeir Gunnar Þór Gíslason, framkvæmdastjóri Sundagarða og
stjórnarformaður Saga Fjárfestingarbanka, og Eggert Árni Gíslason, framkvæmdastjóri Mötu.
Í varastjórn voru kjörnir Geir Gíslason, Gunnar Leó Gunnarsson, Halldór Páll Gíslason, Kristinn Helgi Guðjónsson og Stefán Héðinn Gunnlaugsson. Saga Fjárfestingarbanki flutti höfuðstöðvar sínar frá Hafnarstræti 53 á Akureyri að Höfðatorgi í Reykjavík þann 1. júlí sl. Höfuðstöðvar bankans hafa frá upphafi verið á Akureyri og stærstur hluti starfseminnar farið fram þar, en undanfarið ár hefur sífellt aukinn hluti starfseminnar færst til Reykjavíkur. Er nú svo komið að fleiri starfsmenn bankans hafa aðsetur í Reykjavík en á Akureyri, þannig að flutningur höfuðstöðvanna er eðlilegt skref og í takt við þá þróun, segir á vef Saga Fjárfestingabanka.
Starfsstöð bankans á Akureyri verður lokað á haustmánuðum. Bankinn mun áfram halda góðum tengslum við Akureyri og nærsveitir og vinna með fjölmörgum viðskiptavinum bankans sem staðsettir eru á Norðurlandi, ásamt því að styðja við áframhaldandi uppgang verðbréfafyrirtækisins T Plús á Akureyri, sem bankinn stofnaði ásamt Íslenskum verðbréfum og Stapa lífeyrissjóði, segir ennfremur á vef bankans.