Þriðji sigur Þórs/KA í röð
Þróttur byrjaði leikinn ágætlega og var meira með boltann. Heimamenn tóku hins vegar fljótlega við sér og skoruðu fyrsta mark leiksins eftir tíu mínútna leik. Það gerði Mateja Zver er hún fékk sendingu vinstra megin í teignum og skoraði með hnitmiðuð skoti í fjærhornið. Staðan 1:0.Þór/KA féll svo dæmda vítaspyrnu þremur mínútm síðar er brotið var á Manyu Makoski innan teigs. Rakel Hönnudóttir fór á vítapunktinn og skoraði örugglega og kom heimamönnum í 2:0.
Leikurinn róaðist nokkuð eftir þetta en þó ekki lengi. Manya Makoski kom Þór/KA í 3:0 eftir tæplega hálftíma leik, er hún skoraði af stuttu færi ein á móti markverði Þróttar eftir snilldarsendingu frá Mateju Zver. Þróttarar voru þó ekki alveg búnir að gefast upp og Fanny Vago gaf þeim líflínu með marki af stuttu færi á 40. mínútu. Staðan 3:1 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Þróttarar minnkuðu muninn í 3:2 eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik. Gestirnir fengu þá dæmda vítaspyrnu er Marisha Schumacher braut á Fanny Vago, sem fór sjálf á vítapunktinn og skoraði. Gestirnir komnir vel inn í leikinn og allt opið á Þórsvelli.
Þór/KA komst í 4:2 á 65. mínútu er Manya Makoski skoraði sitt annað mark í leiknum og það urðu lokatölur leiksins.