Þriðji frambjóðandinn til vígslubiskupsembættis að Hólum

Séra Gunnlaugur Garðarsson sóknarprestur í Glerárprestakalli.
Séra Gunnlaugur Garðarsson sóknarprestur í Glerárprestakalli.

SéraGunnlaugur Garðarssonsóknarprestur í Glerárprestakalli á Akureyri gefur kost á sér til embættis vígslubiskups á Hólum og eru frambjóðendurnir þar með orðnir þrír. Áður höfðu Solveig Lára Guðmundsdóttir sóknarprestur á Möðruvöllum í Hörgársveit og Kristján Björnsson sóknarprestur í Vestmannaeyjum gefið kost á sér til embættisins. Ekki er gert ráð fyrir að frambjóðendum fjölgi frekar, þar sem líklegt má telja að allur póstur stimplaður á lokadegi umsóknarfrests, 30. apríl, hafi borist kjörstjórn, segir á vef kirkjan.is.

Í tilkynningu frá sr. Gunnlaugi segir: “Um leið og ég undirritaður,Gunnlaugur Garðarsson, sóknarprestur í Glerárprestakalli, Akureyri, bið sr. Agnesi M. Sigurðardóttur Guðs blessunar í þjónustu hennar sem næsti biskup Íslands, kunngeri ég hér með framboð mitt til embættis vígslubiskups Hólastiftis. Framboð mitt hvílir á knýjandi þrá til að vinna kirkjunni gagn og stuðla að eflingu hennar í tilbeiðslu, boðun og þjónustu. Til þess vil ég bjóða stuðningminn öllum þeim sem það vilja þiggja.

Nánari upplýsingar um sýn mína á kirkjuna, markmið hennar og þjónustu má lesa um á heimasíðu minni www.gunnlaugurgardarsson.com

Í ljósi þess að við lifum tíma umbrota á flestum sviðum tel ég brýnt að við í senn hlúum að kjölfestunni og öllum innviðum um leið og við teygjum okkur fram á við og leitumst við að hafa opinn og breiðan faðm sem samfélag og kirkja. Til að efla hina biskupslegu hirðisþjónustu kirkjunnar þurfum við að huga að endurskoðun þeirra hlutverka. Býður það verkefni komandi tíðar og er ég bjartsýnn á þá vinnu alla undir forystu nýkjörins biskups Íslands. Megi valið til biskupsþjónustu Hólastiftis vera í nafni Jesú Krists og Guði falið,” segir í tilkynningu Gunnlaugs.



Nýjast