Þriðji deildarsigur Þórs í röð

Þórsarar halda sigurgöngu sinni áfram í Pepsi-deild karla í knattspyrnu en liðið vann sinn þriðja leik í röð með 3:0 sigri gegn Fram í kvöld á heimavelli. Gunnar Már Guðmundsson kom Þór yfir í kvöld eftir fimm mínútna leik og staðan 1:0 í hálfleik. Varamennirnir Sigurður Marinó Kristjánsson og Jóhann Helgi Hannesson kláruðu leikinn fyrir heimamenn í seinni hálfleik, en báðir komu þeir inn á þegar rúmur hálftími var eftir af leiknum.

Sigurður kom Þór í 2:0 á 78. mínútu og Jóhann Helgi rak smiðshöggið á lokamínútunni og þrjú dýrmæt stig í hús hjá Þór í baráttunni í neðri hluta deildarinnar.

Fram þyrfti virkilega á sigri að halda í kvöld en liðið er nú í afar vondum málum á botninum með aðeins sex stig og fall blasir við þeim. Þórsarar halda hins vegar áfram að fjarlægjast fallsæti og hafa norðanmenn nú 17 stig í áttunda sæti deildarinnar.

Nýjast