29. janúar, 2008 - 16:37
Fréttir
Frá 1. september sl. hafa yfir 100 starfsmenn við fiskvinnslu misst vinnuna á starfssvæði Einingar-Iðju vegna kvótasamdráttar og ef allt landið er
skoðað er talan mun hærri. Að mati fjármálaráðherra áttu mótvægisaðgerðir að skapa 500 til 600 störf en talið hefur
verið að allt að 1.000 manns í fiskvinnslu verði sagt upp vegna kvótasamdráttar. Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, er orðinn
langþreyttur á að bíða eftir þeim aðgerðum sem kynntar voru til sögunnar sem mótvægi við niðurskurð á
þorskkvóta.
"Það er auðvitað gott að framkvæmdum við lengingu á flugbrautinni hafi verið flýtt, en sú framkvæmd gagnast ekki þeim sem
nú eru að missa vinnuna. Þarna er á ferðinni fólk sem er með áratuga reynslu í faginu og spurning hvort menn átti sig á
fórnarkostnaðinum við þetta. Mörg afleidd starf munu einnig hafa tapast í kjölfarið," segir Björn á vef félagsins. Haft hefur verið
eftir ráðherra byggðamála, Össuri Skarphéðinssyni, að megináhersla mótvægisaðgerða vegna kvótasamdráttar hafi fyrst
og fremst verið beint að smærri stöðum fjærst höfuðborginni. "Ég spyr, hvað með Eyjafjarðarsvæðið? Að mínu mati hefur
svæðið orðið mikið til útundan í þessu sambandi og það litla sem hefur verið gert virkar ekki sem skyldi. Nú er reyndar
búið að auglýsa eftir verkefnum til að sækja um styrki til atvinnuþróunar og nýsköpunar á þeim svæðum sem verða
fyrir aflasamdrætti vegna skerðingar þorskaflaheimilda, en ég sé ekki að það komi til með að hjálpa þeim sem nú standa uppi
án atvinnu nema þá til lengri tíma litið. Við þurfum eitthvað strax og vert að skoða þá hugmynd sem fram hefur komið þess
efnis að fólk sem missir vinnuna í fiskvinnslu geti aflað sér menntunar á kostnað stjórnvalda í tiltekinn tíma. Það er
mál til komið að stjórnvöld bretti upp ermar og láti verkin tala," segir Björn.