Keppendur frá UFA og UMSE gerðu fína hluti á Stórmóti ÍR í frjálsum íþróttum sem haldið var í Laugardalshöllinni sl. helgi. Mótið var fjölmennt en 780 keppendur tóku þátt, þar af 47 frá Færeyjum, frá 23 félögum. Hjá UFA vann Kolbeinn Höður Gunnarsson þrenn gullverðlaun en hann sigraði í 400, 200 og 60 m hlaupi í flokki 16-17 ára. Hafdís Sigurðardóttir sigraði í langstökki kvenna og í 400 m hlaupi og varð í öðru sæti í 60 m hlaupi, Selma Líf Þórólfsdóttir sigraði í hástökki í flokki 15 ára, Heiðrún Dís Stefánsdóttir sigraði í 800 m hlaupi og varð í öðru sæti í 400 m hlaupi í flokki 18 ára, Stefán Þór Jósefsson varð annar í grindahlaupi og vann bronsverðlaun í stangarstökki, kúluvarpi og 800 m hlaupi í flokki 18 ára. Sunna Rós Guðbergsdóttir varð í öðru sæti í þrístökki og í langstökki í flokki 15 ára, Fríða Björk Einarsdóttir hafnaði í þriðja sæti í kúluvarpi í flokki 14 ára og Sesselja Dís Heiðarsdóttir varð þriðja í kúluvarpi í flokki 13 ára.
Hjá UMSE sigraði Júlíana Björk Gunnarsdóttir í stangarstökki í flokki 14 ára, Guðmundur Smári Daníelsson varð í öðru sæti í sömu grein í flokki 14 ára, Helgi Pétur Davíðsson varð þriðji í 600 m hlaupi í flokki 12 ára, Karl Vernharð Þorleifsson varð þriðji í stangarstökki í flokki 14 ára, Sveinborg Katla Daníelsdóttir þriðja í stangarstökki í flokki 16-17 ára og í sama flokki varð Arlinda Fejzulahi í öðru sæti í kúluvarpi.