Eins fram hefur komið tapaði KEA um 1,6 milljarði króna á síðasta ári og skýrist það að mestu af niðurfærslu skuldabréfa og eignarhluta í fyrirtækjum. Bókfært eigið fé var rúmlega 3,8 milljarðar króna um síðustu áramót. Félagið er nánast skuldlaust og á rúma 2 milljarða króna í lausu fé. "Það er von félagsins, miðað við bestu upplýsingar, að nægjanlega hafi verið lagt til hliðar til að mæta mögulegri virðisrýrnun eigna. Tekist hefur að forða KEA frá örlögum flestra hliðstæðra félaga á Íslandi, sem næstum hafa öll lent í gífurlegum erfiðleikum eða orðið gjaldþrota," sagði Hannes.
Hann sagði að samhliða því að nýta sér hátt vaxtastig í landinu á undanförnum misserum, valdi KEA að vera lítið skuldsett í stað þess að fjárfesta í skuldsettum fyrirtækjum eða koma sér upp skuldsettum hlutabréfastöðum. "Félagið var stundum gagnrýnt fyrir þessa afstöðu en fullyrða má að sú stefna hafi einmitt gert það að verkum að félagið lifir enn þokkalegu góðu lífi, eitt örfárra fjárfestingafélaga á Íslandi," sagði Hannes.
Í dag eru tæplega 16 þúsund félagsmenn á félagssvæði KEA, að sögn Hannesar, á svæði sem telur um 24 þúsund manns, eða sem samsvarar tæplega 70% af öllu því fólki sem á svæðinu býr. "Félagsmönnum hefur fjölgað um 6.400 manns á síðustu þremur árum. KEA kortið á án nokkurs vafa mestan heiður af þessari miklu fjölgun, hefur það verkefni tekist mun betur en nokkur þorði að vona og er enn hægt að gera betur," sagði Hannes.
Aðalmennirnir þrír sem voru endurkjörnir til tveggja ára á aðalfundinum í gærkvöld eru; Jóhannes Ævar Jónsson, Hallur Gunnarsson og Erla Björg Guðmundsdóttir, aðrir í stjórn eru, Hannes Karlsson, Björn Friðþjófsson, Njáll Trausti Friðbertsson og Úlfhildur Rögnvaldsdóttir. Varamennirnir sem voru endurkjörnir til eins árs eru; Birgir Guðmundsson, Guðný Sverrisdóttir og Ásgeir Helgi Jóhannsson.