Leiðindaveður var víða um land um helgina og fóru samgöngur úr skorðum af þeim sökum. Hætta varð flugi milli Akureyrar og Reykjavíkur seinni partinn á laugardag og ekkert var flogið á milli þessara staða í gær sunnudag. Fjöldi fólks komst því ekki leiðar sinnar og í morgun var því gripið til þess ráðs að nota Boeing 757 200 þotu frá Icelandair til fólksflutninga og nú á ellefta tímanum lenti hún á Akureyrarflugvelli með um 180 farþega. Á Akureyrarflugvelli beið einnig mikill fjöldi fólks sem fer með þotunni suður til Reykjavíkur. Þar náði biðröðin að afgreiðsluborðinu langt út fyrir flugstöðina.